Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Þrælskemmtilegur Balzac loksins á íslensku

Mynd: - / Skrudda

Þrælskemmtilegur Balzac loksins á íslensku

23.01.2021 - 08:00

Höfundar

Ný íslensk þýðing á Brostnum vonum eftir Honoré de Balzac er uppfull af orðheppni og hnyttni sem unun er að lesa, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Hægt og hljótt læðast heimsbókmenntirnar inn í íslenskar bókmenntir á síðustu árum og sama gildir um franska rithöfundinn, og sumir segðu jöfurinn, Honoré de Balzac. Á síðustu árum er það síðara fyrir tilstilli Sigurjóns Björnssonar, en hann hefur nú þýtt fjórar skáldsögur úr bókabálknum La Comédie humaine, en vefritin segja manni að hann hafi ætlað sér að skrifa 137 bækur í þeirri seríu en ekki náð nema 91 áður en hann varð örendur. Þetta var fyrir utan fjölda annarra verka, útgáfu tímarita, leikverka, auk blaðagreina og ljóða. Sigurjón hefur einnig þýtt ævisögu Balzacs eftir Stefan Zweig, auk þess sem hann hefur getið sér gott orð sem þýðandi Sigmunds Freuds og ýmissa klassískra verka. Þýðingin á þessum þríleik er líka auðsjáanlega af vönum höndum gerð og er hún bráðskemmtilega stíluð. 

Balzac er löngum talinn til þrístirnis franskra raunsæisbókmennta á nítjándu öld ásamt Stendahl og Flaubert og er í raun ótrúlegt að ekki hafi komið meira út eftir hann á íslensku, því sögur hans búa ekki einungis yfir miklu bókmenntagildi, heldur eru þær hinn mesti skemmtilestur, spennandi og drífandi í frásögninni, sem er kannski von þegar um svo afkastamikinn höfund er að ræða. Þýðandi bendir að vísu á nokkrar „villur“ í frumtextanum, aðallega sögulegs eðlis, en það getur stafað af því hve mikið maðurinn skrifaði. Þetta skiptir máli vegna þess að hann skrifaði bæði sögulegar skáldsögur í anda Walters Scotts og einnig sögur sem voru nánast samtímasögur og voru sumir víst stundum reiðir þegar þeir þekktu sig í þeim. 

Brostnar væntingar eru í raun þrjár skáldsögur í einu bindi og komu út þær út hver undir sínum titli á árunum 1839 til 1843. Sú fyrsta, Tvö skáld, segir frá tveimur æskuvinum, Davíð og Lucien, Evu, systur þess síðarnefnda og hefðardömunni Louísu de Bargeton, sem tekur Lucien upp á sína arma, kannski ekki sem elskhuga, en að minnsta kosti sem lærling í góðum siðum. Þetta var reyndar ekki óalgengt í Frakklandi sýnist manni, þótt ekki hafi ég rannsakað það sérstaklega; rúmlega tvítugur var Balzac sjálfur í sambandi 45 ára konu sem veitti honum það sem Flaubert átti eftir að nefna l‘education sentimentale eða tilfinningamenntun í lauslegri þýðingu. Sama gildir um heimspekinginn Rousseau og svo er skáldsaga Flauberts með þessum titli dæmi um að þetta hafi verið vel þekkt í franskri menningu. 

Tvö skáld er að vissu leyti sveitasælusaga með þríhyrningi til viðbótar. Davíð og Eva eru hin hjartahreinu og ná saman, þrátt fyrir óþokkaskap föður Davíðs sem skilur son sinn eftir á vonarvöl með gamla prentsmiðju að reka. Lucien, ungur maður með skáldadrauma, sem auk þess hefur fengið líkamlega fegurð í vöggugjöf, fer hins vegar til Parísar með Louísu eftir dálítinn skandal. Það sem gefur sögunni gildi eru persónulýsingar og kolsvartur húmorinn í munni sögumanns þegar hann veitir okkur innsýn í græðgi og hégóma fólksins, og þröngan ramma lífs í smábæ í Frakklandi, þar sem lágaðallinn rembist við að vera yfir lýðinn hafinn. 

Önnur sagan, Mikilmenni af landsbyggðinni í París, er meginbálkur þríleiksins og alveg óborganleg lýsing á bókmennta- og blaðamannalífi borgarinnar svona í kringum og upp úr 1820, en Balzac gjörþekkti þetta umhverfi sjálfur, hafandi tekið sín fyrstu skref þar sem blaðamaður, leikskáld og rithöfundur. Lucien er mættur og ætlar að sigra heiminn í mestu bókmenntaborg jarðar á þeim tíma og hann á eftir að reka sig á, höfnun og brostnar ástir, og samfélag skálda, leikhúsin, útgefendur, blaðamenn og ekki síst gagnrýnendur fá verulega á baukinn í kolsvartri, en kannski raunsærri kómedíu. Þessi bók er skyldulesning fyrir alla sem þessi störf stunda, það er farið svo undir húðina á öllum að vel svíður og um leið verður maður að brosa að kaldhæðninni, tækifærismennskunni og kannski líka göfginni í sumum tilfellum.  

Meistarinn stillir þessu öllu upp í hringiðu borgarlífsins, þar sem aðallinn snobbar fyrir listamönnunum og öfugt, og pólitíkin kraumar undir, enda voru reglulega byltingar í Frakklandi á þessum tíma. Mig undrar að ekki hafi verið gerðar meiri háttar sjónvarpsseríur úr þessu, The Crown myndi blikna í sínu húmorsleysi við hliðina á því. Kannski hafa Frakkar gert einhverjar slíkar en við bara ekki séð þær hérna uppi á enskulandi. 

Þessi miðhluti sögunnar einkennist einnig af frásagnarkrafti og spennu, en fær lesandann um leið til að íhuga mannlega tilvist, ekki síst breyskleika hennar. Lucien finnur vissulega ástina líka, en verkið er að mörgu leyti klassískur harmleikur þar sem ofdramb söguhetjunnar verður henni að falli. Yfir vötnum svífur líka fástískt element um að selja sál sína og er það raunar endurtekið í þriðju sögunni Raunir uppfinningamanns, sem segir frá samsæri keppinauta Davíðs í prentverkinu til að komast yfir uppfinningu hans á nýrri framleiðsluaðferð á pappír. Hún les sig nánast eins og glæpasaga þótt ekki sé framið neitt morð. 

Sögurnar eru fullar orðheppni og hnyttni sem unun er að lesa og hefur Sigurjóni tekist vel að koma þeim til skila, ég ætla aðeins að nefna tvö, plássins vegna. Í því fyrra hefur einn blaðamaður, vinur Luciens, sem enn er blautur á bak við eyrun í París, sett upp plott til að fá leikkonuna Flórínu til að kúga fé út úr lyfsala einum sem eitthvað er veikur fyrir henni og Lucien mótmælir: 

Lousteau gaf Lucien ekki tíma til að ljúka ræðu sinni. „Úr hvaða landi komið þér, drengur minn? Þetta er ekki maður heldur gullkista sem ástin hefur búið til.“ 
„En hvað um samvisku yðar?“ 
„Samviskan, vinur minn, er eins konar prik sem allir nota til að berja með á nágranna sínum en nota aldrei á sjálfan sig.“ 

Síðar í sögunni, þegar Lucien er farinn að harðna og gengst upp við frama sínum sem bókmenntagagnrýnandi eftir vel heppnaðar greinar, þar á meðal eina um bók sem honum fannst góð, en var vélaður til rífa í sig eftir útgefandi höfundarins hafði hafnað því að gefa út ljóðin hans. Kollegarnir benda honum á að hann vilji samt ekki verða óvinur höfundarins, hann sé frægur og geti orðið ungum höfundi skeinuhættur. Lucien spyr hvað hann eigi að gera og þeir segja honum að skrifa lofrollu um bókina, þvert á það sem hann skrifaði áður. Þetta væri hægt vegna þess að gagnrýni hans var birt nafnlaus (þótt allir hafi vitað hver höfundurinn var). Aftur mótmælir Lucien og segist ekki geta  

„sagt neitt gott um bókina.“ 
„Svo þú skrifaðir það sem þér fannst?“ spurði Hector Lucien. 
„Já.“ 
„Æ, drengur minn,“ sagði Blondet. „Ég hélt að þú hefðir meira bein í nefinu. Hamingjan sanna. [...] Elsku drengurinn minn. Í bókmenntum hafa allar hugmyndir bæði bakhlið og framhlið og enginn getur ábyrgst hvað á að snúa fram og hvað aftur. Hugmyndir eru tvenndir. Og Janus er guð gagnrýninnar og táknguð snillingsins.“ 

Mér er vonandi fyrirgefið að mér finnst þetta fyndið, þótt ég myndi aldrei skrifa undir þetta, bara svo að það sé sagt. En sögurnar þrjár eru fullar af svona augnablikum þar sem manni finnst gaman að lesa og það ber að þakka Sigurjóni það afrek sem hann hefur unnið með þýðingu þessarar bókar, og raunar allra hinna líka.