Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Svona byrjaði fyrsti rappararígur Íslands

Mynd: RÚV / RÚV

Svona byrjaði fyrsti rappararígur Íslands

23.01.2021 - 09:00

Höfundar

„Maður var bara sautján ára og var bara: Auðvitað er beef, ég er rappari,“ segir rapparinn Cell7 um rappsenuna árið 1997. Þá var hún aðeins sautján ára og stóð ásamt hljómsveitinni Subterranean í stríði við hljómsveitina Quarashi. Stríði sem ekki allir áttuðu sig á hvernig byrjaði.

Rapparinn Ragna Kjartansdóttir, eða Cell7 eins og hún kallar sig, vakti fyrst athygli fyrir að spýta rímum af miklu listfengi þegar hún var aðeins sautján ára og kom fram með hljómsveitinni sálugu Subterranean.

Með hverjum heldurðu?

Hljómsveitina stofnaði hún árið 1997 ásamt Magnúsi Jónssyni sem þá kallaði sig Magse; Karli Davíðssyni sem var þekktur sem kalli Youxe; og Frew Elfineh Taha eða Black Fist. Þau gáfu út sína fyrstu plötu sama ár og nefndist hún Central Magnetizm.

Ári áður hafði önnur íslensk rapphljómsveit, Quarashi, gefið út sína fyrstu plötu sem kallaðist Switchstance. Fljótlega urðu þær raddir háværar að það andaði afar köldu á milli sveitanna tveggja og fólk var jafnvel hvatt til að gera upp við sig hvort þau héldu með Quarashi eða Subterranean.

Þetta var líklega fyrsti rappararígur Íslands og margir urðu spenntir að vita meira en mörgum þótti erfitt að átta sig á því hvernig stríðið hefði hafist, jafnvel hljómsveitunum sjálfum.

Cell7 er gestur Matthíasar Más Magnússonar  í Tónatali í kvöld og þar segir hún meðal annars frá þessu fræga stríði.

Andrúmsloftið stirt og óþægilegt

„Þetta var bara gúrkutíð, fólk hafði ekkert að skrifa um og það var bara: Hér eru tvær rapphljómsveitir, þær hljóta að hata hvort annað,“ segir hún. En þegar hún og félagar hennar fréttu af stríðinu voru þau alveg viljug til að taka þátt í því. „Við bara: Já, við hljótum að gera það! Svo það vorum við sem komum eftir á og samþykktum það bara.“

Þegar sveitirnar tvær hittust var andrúmsloftið jafnan stirt og óþægilegt, „bara af því að við höfðum lesið um þetta beef en vissum ekki nákvæmlega um hvað það var,“ segir Ragna.

Quarashi of miklir rokkarar og Subterranean of mikið r&b

Báðar sveitir voru þó sammála um að þær væru meira töff og betri rapparar en hin, Quarashi leit á Subterrainian sem r&b hljómsveit en Subterranen-liðum fannst Quarashi-menn vera rokkarar, sem þótti ekki nógu smart í rappheimi þess tíma. „Það var aðal dissið,“ segir hún. „En maður var bara sautján ára og eitthvað: Auðvitað er beef, ég er rappari.“

Í dag er hún eldri en sautján vetra en hún er sannarlega ekki hætt að rappa. Fyrsta sólóplata Cell7 kom út árið 2013 og síðan hefur hún verið iðin við kolann og enn í dag er hún eitt stærsta númerið í íslenskri rappsenu.

Í Tónatali tekur Matthías Már Magnússon á móti tónlistarfólki sem veitir innsýn í líf sitt og flytur nokkur af vinsælustu lögunum sínum í bland við nýjar ábreiður. Þátturinn er á dagskrá í kvöld klukkan 19:45.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hver vill elska söngvaskáld frekar en verðbréfasala?