Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segir „breska afbrigðið“ mögulega banvænna en önnur

23.01.2021 - 05:42
epa08951099 British Prime Minister Boris Johnson departs 10 Downing Street for Prime Minister Questions at parliament in London, Britain, 20 January 2021.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Vísbendingar eru um að hið svokallaða breska afbrigði af kórónaveirunni sem veldur COVID-19 sé ekki einungis meira smitandi en fyrri afbrigði, heldur líka hættulegra heilsu og lífi fólks. Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, greindi frá þessu í gær. Mikil óvissa er þó um gildi þessara vísbendinga og tölur mjög á reiki, auk þess sem talið er að fram komin bóluefni gagnist gegn þessu afbrigði ekki síður en öðrum.

Þessar vangaveltur byggja gögnum og útreikningum stærð- og líftölfræðinga, sem hafa borið saman dánarhlutfall  fólks sem veikist af eldra afbrigðinu og hinu nýja, sem dreifst hefur hratt um Bretland síðustu vikur og mánuði. Yfir 1.800 manns hafa dáið úr COVID-19 á degi hverjum síðustu vikuna og eru dauðsföll af völdum COVID-19 orðin rúmlega 96.000 á Bretlandi, fleiri en nokkurs staðar annars staðar miðað við höfðatölu.  

Á fréttamannafundi í Downingstræti 10 sagði Johnson að „auk þess að breiðast hraðar út, þá virðist nú einnig sem einhverjar vísbendingar séu um að nýja afbrigðið [...] tengist hugsanlega hærri dánartíðni. Það er að miklu leyti vegna þessa nýja afbrigðis, sem álagið á heilsugæslunni er svona gríðarlegt núna,“ sagði forsætisráðherrann.

Takmörkuð gögn til grundvallar kenningunni

Hópur vísindamanna sem hefur rýnt í þróun farsóttarinnar í Bretlandi að undanförnu komst að þeirri niðurstöðu að það sé „raunverulegur möguleiki“ á því að nýja afbrigðið sé banvænna en hið fyrra, en það sé þó alls ekki víst að svo sé. Sir Patrick Vallance, helsti vísindaráðgjafi bresku stjórnarinnar, leggur áherslu á að þessi kenning hvíli á afar takmörkuðum gögnum enn sem komið er og því óvarlegt að draga of miklar ályktanir af þeim.