Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Rósa Björk vill leiða Samfylkinguna í Suðvesturkjördæmi

23.01.2021 - 14:42
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Rósa Björk Brynjólfsdóttir sækist eftir því að leiða lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi fyrir kosningar til Alþingis næsta haust. Rósa gekk nýverið í Samfylkinguna, en hún var kjörin á þing árið 2016 fyrir Vinstri græna, en hún sagði sig úr flokknum í fyrra.

Rósa sagði sig úr þingflokki VG og hreyfingunni í kjölfar máls egypskrar fjölskyldu sem vísa átti úr landi í september. Þá sagði hún að málið hafi orðið til þess að hún finni endanlega enga samleið lengur með þingflokki VG.  Hún sat á þingi sem þingmaður utan flokka þar til í desember þegar hún gekk til liðs við Samfylkinguna.  

„Ég hef tekið ákvörðun um að sækjast eftir að leiða lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, fjölmennasta kjördæmi landsins. Það kjördæmi þekki ég vel enda þingmaður þess frá 2016. Ég hef fulla trú á að stefna og sýn Samfylkingarinnar eigi mikinn hljómgrunn hjá kjósendum í Suðvesturkjördæmi, sem og annars staðar og mun ég leggja mig alla fram um að vinna vel í þágu þeirra, nú sem áður. Ég hlakka til að takast á við krefjandi en spennandi verkefni á næsta kjörtímabili,“ segir í tilkynningu frá Rósu Björk. 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV