Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rafíþróttir blómstra í miðjum heimsfaraldri

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson
Ólíkt flestum íþróttum hafa rafíþróttir blómstrað í faraldrinum. Rafíþróttadeildir hafa verið stofnaðar innan hátt í 20 íþróttafélaga á Íslandi og menntamálaráðherra vill styrkja umhverfi þeirra enn frekar. 

Nýttu tímann og stofnuðu rafíþróttadeildir

Kórónuveirufaraldurinn hefur hamlað íþróttastarfi verulega síðastliðið ár en þeir sem keppa í tölvuleikjum hafa minna orðið fyrir barðinu á honum. 
Mótin færðust bara úr íþróttahöllum og yfir á netið. Mörg íslensk íþróttafélög hafa nýtt tímann og stofnað rafíþróttadeildir. „Vöxturinn hefur verið gríðarlegur, fyrir Covid voru komin einhver átta félög af stað og við bjuggumst við því þegar Covid fór að hitta okkur og við fórum að loka alls staðar að þetta myndi tefja okkur umtalsvert en núna á þessu nýja ári eru þau orðin 17 eða 18 íþróttafélögin sem eru komin með starfsemi og enn fleiri á leiðinni,“ segir Aron Ólafsson, framkvæmdastjóri Rafíþróttasamtaka Íslands. 

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson
Aron Guðmundsson.

Rafíþróttadeild Fylkis að sprengja utan af sér húsnæði

Reykjavíkurborg styrkti á sínum tíma þrjú íþróttafélög til að koma á fót rafíþróttadeildum. Starfshópur á vegum menntamálaráðherra vinnur nú að því að styrkja umhverfi rafíþrótta og á að skila af sér tillögum í febrúar. Rafíþróttadeild Fylkis var stofnuð vorið 2019, þar er meistaraflokkur sem keppir innanlands og utan og svo sækja um 50 krakkar námskeið í hinum ýmsu tölvuleikjum. Deildin hefur stækkað ört, er eiginlega að sprengja utan af sér húsnæðið og í fyrra var íþróttamaður ársins hjá félaginu úr rafíþróttadeildinni. „Stjórnin hjá Fylki á hrós skilið fyrir að vera með allt upp á tíu þegar kemur að rafíþróttunum og við erum bara hérna sem viðurkennd íþróttagrein innan félagsins og þeir hjálpa okkur að stækka og sjá tækifærið í rafíþróttunum,“ segir Bjarki Már Sigurðsson, yfirþjálfari rafíþróttadeildar Fylkis. 

Fleiri framfleyta sér með streymi

Þeir sem komast í atvinnumennsku í rafíþróttum geta haft mikið upp úr því, þeir eru nokkrir hér sem starfa að hluta við að spila rafíþróttir. Það hefur líka færst í aukana, sérstaklega með stórauknu áhorfi í faraldrinum, að fólk framfleyti sér með því að spila tölvuleiki í beinni útsendingu, eiga í misgáfulegum samskiptum við áhorfendur og lýsa því sem gerist í leiknum, oft á spaugsaman hátt.  „Það eru nokkrir sem hafa talsvert mikið áhorf eins og Jói Spói sem einstaklingur, hann hefur mjög líklega atvinnu af þessu þó við tölum nú ekki um peninga þegar við tölum saman,“ segir Aron.  

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson
Bjarki Már Sigurðsson.

Fleiri framfleyta sér með streymi

Þeir sem komast í atvinnumennsku í rafíþróttum geta haft mikið upp úr því, þeir eru nokkrir hér sem starfa að hluta við að spila rafíþróttir. Það hefur líka færst í aukana, sérstaklega með stórauknu áhorfi í faraldrinum, að fólk framfleyti sér með því að spila tölvuleiki í beinni útsendingu, eiga í misgáfulegum samskiptum við áhorfendur og lýsa því sem gerist í leiknum, oft á spaugsaman hátt.  „Það eru nokkrir sem hafa talsvert mikið áhorf eins og Jói Spói sem einstaklingur, hann hefur mjög líklega atvinnu af þessu þó við tölum nú ekki um peninga þegar við tölum saman,“ segir Aron.  

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV