Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikilvægt að ná breiðri sátt um stjórnarskrárbreytingar

23.01.2021 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Formaður Miðflokksins telur ólíklegt að hægt verði að skapa breiða samstöðu um tillögur forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskrá. Hann segir óheppilegt að ráðherra hafi kosið að leggja þetta fram sem þingmannafrumvarp eins og hvert annað pólitískt deiluefni.

 

Frumvarpi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskrá var dreift á Alþingi á fimmtudag. Ekki tókst að ná samkomulagi um sameiginlegt frumvarp formanna allra flokka á Alþingi og því er Katrín eini flutningsmaðurinn.

Breytingartillögurnar varða umhverfis- og náttúruvernd, íslenska tungu og breytingar á kafla um forseta og framkvæmdavald. Þá er tillaga um nýtt auðlindaákvæði.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir óheppilegt að málið hafi farið í þennan farveg.

„Mér líst ekki vel á aðferðina. Fordæmið sem er skapað með því að stjórnarskrárbreytingar séu lagðar fram sem þingmannafrumvarp eins og hvert annað pólitískt deiluefni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að viðhalda þeirri samstöðu sem hefur verið um stjórnarskrána og að breytingar á henni séu gerðar í sæmilegri sátt,“ segir Sigmundur.

Hann segist þó sáttur við tillöguna um íslenska tungu.

„En svo eru atriði sem maður er sammála um að eigi að fara inn eins og auðlindaákvæði en það er þá kannski spurning um orðalag. Ég held að við höfum verið komin mjög nálægt því en það má bæta það.  Og sama með náttúruverndina þar þarf að huga að raunverulegum áhrifum ákvæðisins. Auðvitað fallegt að hafa náttúruverndarákvæði í stjórnarskránni. Allir geta sjálfsagt tekið undir það en það skiptir máli hvernig það er orðað,“ segir Sigmundur.

Hann telur að það verði erfitt að skapa breiða sátt um frumvarp ráðherra.

„Mér finnst ólílklegt í ljósi þess að þessir átta formenn áttu mjög erfitt með að ná saman um þetta á fjölmörgum fundum að þegar 63 þingmenn taka þetta fyrir og ræða þetta með þeim skamma tíma sem er til stefnu að við náum þá lendingu í því,“ segir Sigmundur.