Írakskir hermenn á verði skammt frá útimarkaðnum í Bagdad, þar sem hryðjuverkamenn myrtu 32 almenna borgara í sjálfsvígsárás á miðvikudag Mynd: EPA-EFE - EPA
Ellefu liðsmenn bardagasveitar Hashed al-Shaabi-hreyfingarinnar, sem nýtur stuðnings og velvildar Íraksstjórnar, voru felldir þegar sveit þeirra var gerð fyrirsát í kvöld. Tíu til viðbótar særðust í árásinni, sem heimildarmenn AFP innan hreyfingarinnar segja vígamenn Íslamska ríkisins hafa gert.
Í frétt AFP segir að árásarmennirnir hafi ráðist að Hashed-mönnum í skjóli myrkurs, austur af borginni Tikrit, höfuðborg Salahaddin-héraðs. Tveir dagar eru síðan menn á vegum Íslamska ríkisins felldu 32 óbreytta borgara og særðu á annað hundrað til viðbótar í tvöfaldri sjálfsvígsárás á fjölförnu markaðstorgi í höfuðborginni Bagdad.