Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Guðmundur Andri sækist eftir efstu sætum í SV–kjördæmi

23.01.2021 - 15:31
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingar í suðvesturkjördæmi.
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, eða Kraganum, lýsti í dag yfir vilja sínum til að vera meðal efstu manna á lista Samfylkingar fyrir kosningar til Alþingis í haust. Hann hefur leitt lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi á þessu kjörtímabili.

Þetta kemur fram á Facebook síðu Guðmundar. Þar segist hann telja sig eiga erindi í stjórnmálum og vilji sinna því starfi áfram. Hann tók sæti á Alþingi árið 2017. Fyrr í dag var greint frá því að Rósa Björk Brynjólfsdóttir sækist eftir því að leiða lista Samfylkingar í Suðvesturkjördæmi. 

Ekki verður haldið prófkjör, heldur sér uppstillingarnefnd um að raða fólki á lista fyrir kosningarnar sem fara fram í haust. Yfirlýsingu Guðmundar má lesa hér að neðan.

„Þegar ég var beðinn um að leiða lista Samfylkingarinnar í þingkosningunum 2017 var staðan þannig að við áttum engan þingmann í kjördæminu. Með samstilltu átaki hjá góðri áhöfn í skemmtilegri kosningabaráttu tókst okkur að endurheimta þingsætið – og munaði grátlega litlu að Margrét Tryggvadóttir næði að komast inn líka. Síðan hafa árin þotið áfram, hver dagur boðið upp á fjölbreytt og krefjandi verkefni og ég hef smám saman náð tökum á þessu starfi. Það er mikil vegsemd að vera þingmaður, að vera trúað fyrir því að sitja á löggjafarsamkomunni og starfa þar við lagasetningu og málflutning í anda og umboði þúsunda fólks sem aðhyllist sömu lífsviðhorf og maður sjálfur. Ég tel að jafnaðarstefnan sé mikilvægari en nokkru sinni því að hún ein hefur úrræði til að vinna gegn vaxandi misskiptingu og lotugræðgi kapítalismans um leið og mannúð, gagnkvæmt umburðarlyndi og virðing fyrir einstaklingunum og vali þeirra er innbyggð í þessa stefnu. Mér finnst ég hafa erindi í pólitik og í þingflokki jafnaðarmanna. Fyrir utan það að vera talsmaður hugsjóna og stefnumála lít ég á það sem hlutverk mitt að stuðla að sáttum og góðu andrúmslofti og ég held að ég hafi lagt mitt af mörkum til þess að þingflokkur Samfylkingarinnar hefur á þessu kjörtímabili verið býsna öflugur, samheldinn og málefnalegur. Og mig langar að halda áfram. Mér fyndist gaman að vera með í því liði sem myndi fjölga þingsætum okkar og gera jafnaðarmenn aftur að því afli í kjördæminu sem vera ber. Þessu ræður uppstillingarnefndin. Hún er skipuð valinkunnu og góðu fólki úr kjördæminu og ég veit að þau komast að góðri niðurstöðu fyrir kjördæmið og flokkinn. Og hvernig sem niðurstaðan verður mun ég una henni og halda áfram að leggja mitt af mörkum,“ segir í yfirlýsingu Guðmundar Andra.

Uppfært: 16:16. Fréttin hefur verið uppfærð þar sem Guðmundur sækist ekki eftir að leiða listann, aðeins að vera meðal efstu manna á lista. Beðist er velvirðingar á þeim leiðu mistökum.