Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Engin hætta á ferðum ef fólk fylgir fyrirmælum“

23.01.2021 - 10:31
Myndir frá ísafirði 15. janúar 2020. Leitað eftir snjóflóðum
 Mynd: Kévin Dubois - Aðsend
„Það er engin hætta á ferðum ef fólk fer að fyrirmælum,“ segir Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Ísafirði, í samtali við fréttastofu. Reitur með atvinnuhúsum hefur verið rýmdur á Ísafirði vegna snjóflóðahættu. „Fólk sem vinnur á svæðinu flýtti för sinni heim í gær og mætir ekki á þetta svæði í dag,“ segir hann.

Hann segir að það þurfi ekki mikinn viðbúnað í rýminguna. „Rýmingin nær bara til atvinnuhúsnæðis og engin íbúðahús eru talin vera í hættu. Við höfum lokað nokkrum vegum sem eru taldir hættulegir og svo er Sorpmóttaka í Funa lokuð vegna snjóflóðahættu á því svæði. Ef fólk fer að leiðbeiningum yfirvalda ætti allt að fara vel,“ segir hann.

Í gær var lýst yfir óvissustigi á norðanverðum Vestfjörðum vegna snjóflóðahættu. Í gærmorgun féllu tvö snjóflóð að vegi á Eyrarhlíð og seinnipartinn féll flóð í Seljalandshlíð í Skutulsfirði. Þá féllu tvö lítil snjóflóð utan við Flateyri í fyrradag og fjögur flóð hafa fallið í norðanverðum Súgandafirði, þar af þrjú í sjó en þau ollu ekki flóðbylgju.