Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Biden hyggst tvöfalda lágmarkslaun hjá hinu opinbera

23.01.2021 - 08:01
epa08424876 A volunteer helps a woman putting her care packages with food donations from the Food Bank for New York City in her shopping bags in Brooklyn, New York, New York, USA, 15 May 2020. Unemployment claims in the US are above 36 million people as the national economy is showing a massive impact from state and city responses to controlling the coronavirus pandemic.  EPA-EFE/Alba Vigaray
 Mynd: EPA
Joe Biden, Bandaríkjaforseti, sagðist í gær vilja tvöfalda lágmarkslaun í landinu og ríflega það; hækka þau úr 7.25 Bandaríkjadölum á klukkustund í 15, eða úr 935 krónum í 1.935. Fyrsta skrefið í þessa átt verður tilskipun um að enginn starfsmaður hins opinbera fái lægri laun en 15 dali á tímann.

Verkalýðshreyfingin vestra hefur barist fyrir 15 dollara lágmarkslaunum í hartnær áratug en lítið orðið ágengt, samkvæmt vef NBC. Breytt pólitískt landslag, aukinn popúlismi í báðum stóru flokkunum og sívaxandi fjárkröggur hinna lægst launuðu, ekki síst í COVID-kreppu síðustu missera, gætu loksins hafa breytt því, segir í frétt NBC.

Haft er eftir hagfræðingnum Mark Hamrick að verði lágmarkslaun hins opinbera hækkuð, eins og Biden hefur lofað, þá muni það stórbæta hag margra sem nú eru við fátæktarmörk. Þá muni aukin fjárráð hinna lægstlaunuðu og að líkindum skila sér sem innspýting í hagkerfið á þessum krepputímum, sem skili sér á endanum aftur í ríkiskassann.

Einnig muni þetta skapa þrýsting á atvinnurekendur á almenna vinnumarkaðnum, um að þeir hækki lægstu laun, sem líka muni skila sér aftur inn í efnahagskerfið með aukinni neyslu.