
AstraZeneca: Afhendingu seinkar vegna framleiðsluvanda
Fyrirtækið stefndi að því að dreifa 80 milljónum skammta til aðildarríkja Evrópusambandsins fyrir lok mars en nú er útlit fyrir að skammtarnir verði ekki nema 31 milljón. Íslensk stjórnvöld fá bóluefni í gegnum samninga Evrópusambandsins en ekki er hægt að fullyrða um það að svo stödduhvaða áhrif töfin kann að hafa á afhendingu bóluefnis hingað til lands.
Lyfjastofnun Evrópu hefur ekki enn gefið AstraZeneca leyfi fyrir dreifingu innan Evrópusambandsins en búist er við að leyfi verði veitt í lok mánaðarins.
Austurrísk yfirvöld hafa gagnrýnt AstraZeneca harðlega fyrir að standa ekki við þá afhendingaráætlun sem fyrirtækið hafði lofað. Í frétt á vef breska ríkisútvarpsins segir að stjórnvöld í Austurríki hafi gert ráð fyrir að tvær milljónir skammta myndu berast þangað til lands fyrir lok mars, en nú líti út fyrir að skammtarnir verði aðeins 600 þúsund, og að 1,4 milljónir skammta berist svo í apríl. Rudolf Anschober, heilbrigðisráðherra landsins, hefur sagt að töfin sé með öllu óásættanleg.
Þrátt fyrir að tafir á afhendingu bóluefnis, bæði hjá AstraZeneca og bandaríska lyfjarisanum Pfizer, setji bólusetningaráform ýmissa ríkja í uppnám segist framkvæmdastjórn Evrópusambandsins enn binda vonir við að búið verði að bólusetja 70 prósent íbúa aðildarríkjanna næsta sumar.