Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Allt í einu stend ég í snjó upp að hnjám“

23.01.2021 - 12:41
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Þorri Helgi
Björgunarsveitir aðstoðuðu á þriðja tug vegfarenda þegar tvö snjóflóð féllu á þjóðveg 1 á Öxnadalsheiði í gærkvöld. Ákveðið hefur verið að rýma svæði á Ísafirði vegna snjóflóðahættu.

Vonskuveður hefur verið á norðan- og vestanverðu landinu síðastliðna sólarhringa og fjallvegir flestir ófærir. Í dag var lýst yfir hættustigi vegna snjóflóðahættu á Ísafirði. Til stendur að rýma atvinnuhúsnæði en nokkur flóð hafa fallið í Skutulsfirði í gær og í nótt, þar af þrjú ofan þessara húsa. Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Ísafirði, segir að engin íbúðarhús séu í hættu.

„Rýming húsa hefur bara náð til atvinnuhúsnæði. Engin íbúðarhús eru talin vera í hættu. Við höfum lokað nokkrum vegum hérna sem eru taldir hættulegir eins og staðan er og ef fólk fer bara að fyrirmælum og leiðbeiningum yfirvalda ætti allt að fara vel,“ segir Hlynur.

Rýming vegna snjóflóðahættu er enn í gildi á Siglufirði og óvissustig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi og norðanverðum Vestfjörðum. Tvö snjóflóð féllu á þjóðveg 1 á Öxnadalsheiði seint í gærkvöld og var heiðinni lokað. Enginn bíll lenti í flóðinu en um 15 bílar voru stopp sitthvoru megin við það. Smári Sigurðsson er í aðgerðastjórn Landsbjargar í Eyjafirði.

„Það gekk nú alveg þokkalega að losa um þessa bíla en það var þó ekki búið að losa um alla bílana þegar seinna flóðið fellur heldur austar. Þá voru tveir björgunarsveitabílar og þrír einkabílar fastir þarna á milli flóðanna og þá var ekkert um neitt annað að ræða en að drífa fólkið bara inn í björgunarsveitabílana og koma öllum af þesus hættusvæði sem allra fyrst,“ segir Smári.

Hannes Rúnarsson atvinnubílstjóri var ásamt fleirum að moka bíl í gegnum mikinn skafl á veginum þegar fyrsta snjóflóðið féll. „Það kemur höggbylgja og kolvitlaust veður og kögglar og drasl sem fýkur yfir okkur. Maður náttúrulega áttaði sig ekkert á hvað væri um að vera heldur bara allt í einu stend ég í snjó upp að hnjám, húfan fýkur af mér og eyrun fyllast af snjó,“ segir hann.

Hannes er ósáttur með að heiðinni hafi ekki verið lokað fyrr og að ekki hafi komið ruðningsbíll frá Vegagerðinni aftur á svæðið. „Það þarf eitthvað að skoða verkferlana hjá Vegagerðinni. Þetta hefði getað farið illa.“