Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Á annað hundrað þjóðvarðliða með COVID-19

23.01.2021 - 02:32
epa08958805 Members of the New York National Guard  march in formation on the east front of the US Capitol building on Capitol Hill in Washington, DC, USA, 22 January 2021. Approximately 25,000 National Guard troops from all over the country were activated in order to protect the US Capitol and other locations in Washington following the January 6th attack on the Capitol by a pro-Trump mob.  EPA-EFE/SAMUEL CORUM
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Minnst 150 þeirra þjóðvarðliða sem sáu um öryggisgæsluna við innsetningarathöfn Joes Bidens og Kamölu Harris í Washington á miðvikudag hafa greinst með COVID-19. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir ónefndum heimildarmanni innan stjórnsýslunnar.

Öryggisráðstafanir í tengslum við innsetningarathöfnina voru umfangsmeiri en nokkru sinni fyrr, af ótta við óspektir og jafnvel eitthvað enn verra, í kjölfar áhlaups hægri-öfgamanna úr hópi ákafasta stuðningsfólks Donalds Trumps á þinghúsið 6. janúar. 

Um 25.000 þjóðvarðliðar voru kallaðir til gæslustarfa, víggirðingar reistar á stóru svæði umhverfis þinghúsið með öryggishliðum sem mönnuð voru vopnuðum þjóðvarðliðum. Þá kannaði alríkislögreglan, FBI, bakgrunn allra þjóðvarðliða sem kallaðir voru til starfa, sem varð til þess að á annan tug manna var leystur frá störfum vegna tengsla við öfgahópa yst á hægri væng stjórnmálanna.

Tjá sig ekki um heilsufar þjóðvarðliða

Í yfirlýsingu frá yfirstjórn þjóðvarðliðsins segir að hún tjái sig ekki um kórónaveirusmit liðsmanna, en reglum og leiðbeiningum sóttvarnayfirvalda sé fylgt í hvívetna. Verið er að undirbúa brottflutning þjóðvarðliðsins frá höfuðborginni og er haft eftir yfirstjórn hersins, að allt að 15.000 þjóðvarðliðar hverfi til síns heima á næstu dögum. Reiknað er með að um 7.000 þeirra verði um kyrrt út þennan mánuð hið minnsta og um 5.000 fram í miðjan mars.