Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

62 tilkynningar um aukaverkanir: Var veik í 10 mánuði

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Lyfjastofnun hefur fengið 62 tilkynningar um aukaverkanir af lyfinu Flixabi. Kona sem fékk lyfið í tvígang þjáðist af margvíslegum aukaverkunum í tíu mánuði. Hún fær engar aukaverkanir af frumlyfinu, sem er dýrara. Um 600 manns nota Flixabi hér á landi.

Flixabi er líftæknilyf sem er meðal annars gefið fólki sem þjáist af gigt, sáraristilbólgu og crohns-sjúkdómnum. Flixabi er svokallað hliðstæðulyf við frumlyfið sem heitir Remicade. Lyfið er gefið í æð, og er það aðeins gert á sjúkrahúsum eða öðrum heilbrigðisstofnunum. Flixabi fékk markaðsleyfi árið 2016 og er merkt með svörtum þríhyrningi, sem þýðir að það er undir sérstöku eftirliti. Frá því að lyfið kom á markað hafa borist 62 tilkynningar til Lyfjastofnunar vegna gruns um aukaverkanir af völdum þess. Þar af hefur ein flokkast sem alvarleg.

Fann fyrir miklum kvíða

Íris Hafþórsdóttir þjáist af crohns-sjúkdómnum og hefur fengið lyf gegn honum með góðum árangri. Vorið 2019 var lyfjagjöf hennar hins vegar breytt, og hún fékk þá Flixabi í tvígang, með átta vikna millibili. Miklar aukaverkanir fylgdu þeirri lyfjagjöf.

„Ég fékk mikla liðverki, vöðvaslen, þreytu, hita, beinverki, þreytu í augun og endurteknar sýkingar.“

Íris var vön að ganga á fjöll og stunda líkamsrækt, en segist varla hafa getað lyft léttum lóðum á meðan á veikindunum stóð. Hún var um tíma fárveik og þurfti að leita til sjúkraþjálfara til að fá þrekið aftur. En Íris þjáðist einnig af miklum andlegum aukaverkunum og endaði á að einangra sig.

„Ég fann fyrir miklum kvíða þegar ég fann fyrir öllum þessum aukaverkunum og ég fór að hugsa um framtíðina, hvort ég yrði jafnvel óvinnufær. Út frá því fékk ég mikinn kvíða og þurfti að fá aðstoð hjá sálfræðingi til að hjálpa mér út úr því,“ segir Íris.

Hvað stóð þetta lengi yfir?

„Ég var veik í 10 mánuði.“

Þannig að eftir tvær lyfjagjafir varstu veik í 10 mánuði?

„Já.“

„Sumir hafa jafnvel verið óvinnufærir“

Á seðli sem Íris fékk þegar hún fékk lyfið í seinna skiptið, er varað við aukaverkunum, meðal annars hita, þreytu, þrálátum hósta, mæði, þyngdartapi, nætursvita, niðurgangi, sárum, tannvandamálum, sviða við þvaglát og flensulíkum einkennum.

Eftir að aukaverkanirnar komu í ljós ákvað meltingarsérfærðingur Írisar að hætta að gefa henni Flixabi.

„Ég fékk tvær gjafir af Flixabi og er komin á Remicade núna sem er upprunalega lyfið.“

Og eru engar aukaverkanir af því?

„Nei. Engar aukaverkanir af því.“

Í umræðuhópi fólks með bólgur í meltingarfærum á Facebook segja margir sömu sögu og Íris; að þeir hafi fundið fyrir miklum aukaverkunum af Flixabi, en litlum eða engum af Remicade eða öðru hliðstæðulyfi sem heitir Inflectra.

„Það eru margir sem tala um sömu aukaverkanir og ég fékk, og jafnvel verri. Sumir hafa jafnvel verið óvinnufærir,“ segir Íris.

600 manns nota Flixabi

Samkvæmt svörum frá Lyfjastofnun hefur ekkert komið fram um að meiri áhætta fylgi Flixabi en öðrum sambærilegum lyfjum. Þær tilkynningar sem borist hafi um aukaverkanir séu í samræmi við upplýsingar sem fram hafi komið í samantekt á eiginleikum lyfsins og í fylgiseðli þess. Þá sé öryggi lyfsins metið með reglubundnum hætti. Niðurstaða úr síðasta mati árið 2018 hafi verið sú að hlutfallið milli ávinnings og áhættu af notkun lyfsins væri óbreytt.

Í svari Landspítalans kemur fram að í kjölfar útboðs um kaup á lyfjum hafi Flixabi ásamt öðru hliðstæðu lyfi, Imraldi, verið hagstæðasti kosturinn í þessum lyfjaflokki. Nýr samningur hafi tekið gildi í mars árið 2019 og í kjölfarið hafi margir sjúklingar verið settir á Flixabi. Þeir hafi allir fengið fræðslu um lyfið. Flestar tilkynningar um aukaverkanir hafi borist árið 2019, en þá hafi sérstaklega verið fylgst með aukaverkunum í kjölfar skiptanna. Þeir sjúklingar sem hafi ekki þolað lyfið hafi fengið önnur lyf, annað hvort frumlyfið eða önnur sambærileg lyf. Nú séu um 600 manns á Íslandi í meðferð með Flixabi og það gangi vel.

„Mér finnst bara erfitt að sjá að það er enn þá verið að gefa þetta lyf. Það eru jú margir sem þola þetta lyf, en mér finnst að það sé verið að taka of mikla áhættu með líf og líðan fólks,“ segir Íris.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV