Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þórdís hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir FASASKIPTI

Mynd með færslu
Sigurskáldið Þórdís Helgadóttir milli þeirra Eyþórs Árnasonar, sem hreppti önnur verðlaun, og Unu Bjarkar Kjerúlf, sem lenti í þriðja sæti. Mynd: Kópavogsbær

Þórdís hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir FASASKIPTI

22.01.2021 - 00:38

Höfundar

Þórdís Helgadóttir, heimspekingur og rithöfundur, hlaut í gær Ljóðstaf Jóns úr Vör 2021 fyrir ljóð sitt FASASKIPTI. Í umsögn dómnefndar um ljóðið segir meðal annars að Fasaskipti sé „margrætt ljóð um umhverfingar og skil milli heima, yfirborð og himnur, mörk dags og nætur, þunnt skænið sem aðskilur veruleika okkar frá djúpinu. [...] Ljóðið hreyfist og breytist,“ segir dómnefnd, „og virðist nánast iða af göldrum góðrar ljóðlistar.“

Í öðru sæti var Eyþór Árnason, skáld og sviðsstjóri, fyrir ljóðið Skrítnir dagar og Una Björk Kjerúlf hreppti þriðja sætið fyrir Óvænt stefnumót. Að auki hlutu sjö ljóð sérstaka viðurkenningu dómnefndar, þar af þrjú ljóð eftir Eyþór Árnason; Gömul bylgjulengd, Maxím Gorkí og Vindmyllur, tvö ljóð án titils eftir Bjarna Bjarnason, Hendur Hauks Þorgeirssonar og Heimsókn Hjartar Marteinssonar.  

Fasaskipti

Ég elska börnin mín og börnin sem börnin mín

Elska og börnin sem elska börnin mín.

Þau keyra kuldaskó í gegnum ísinn þegar

Tjörnina hefur lagt. Þau elska að beita afli.

Brjóta flísar úr ísingunni og halda þeim upp að

Andlitinu. Ég sé þau út um gluggann, saltsleikt

Auga hússins. Þau sjá mig gegnum tært gler.

Ljósgul skíma og svo dimmir. Þannig er tíminn

Skorinn í sneiðar, hvítar og svartar, skiptingin

Ekki bróðurleg frekar en á öðrum gæðum.

Frostið herðir á aðgreiningunni milli heima

Og breytir lygum í sannindi. Gerir göngubrú úr

Svokölluðu yfirborði vatnsins. Ef falskir botnar fela

Eitur eða fjársjóði, hvað felur þá falskt yfirborð?

Börnin en ekki ég treysta gljúpri himnunni

Yfir handanheiminum þar sem andardrátturinn

Rennur í öfuga átt. Enda er stutt síðan þau komu

Í gegn, önduðu hringöndun meðan þau drukku,

Fljótandi fæði úr sykurbrjósti. Þau bíta í rendurnar

Bryðja glerbrjóstsykur, stolt af styrk sínum.

Í barnatennur vantar taugarnar fyrir tannkul.

Það blómstrar ætiþistill í eldhúsglugganum.

Enginn elskar veturinn eins og börnin mín.

Englabróðir sigraði í Ljóðasamkeppni grunnskólanna

Við sama tilefni voru veitt verðlaun í Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs og var dómnefnd sú sama. Þar hlaut 1. verðlaun Kári Rafnar Eyjólfsson í 5. bekk Álfhólsskóla fyrir ljóðið Englabróðir.

Stóri bróðir ég sakna þín.

Eitt það sem ég þrái heitast er bara að sjá þig,

bara einu sinni alla vega.

En ég veit að þú ert alltaf hjá mér

og gætir mín í gegnum skýin.

Nú værir þú tólf ára,

tveimur árum eldri en ég.

Þú myndir gæta mín samt,

þótt við hefðum fengið að vera hér

samtímis.

En nú gerir þú það í gegnum skýin.

Það er skrítin tilfinning að sakna þín

án þess að hafa hitt þig.

Mér finnst ég hafa hitt þig

í gegnum minningar þeirra s

em þekktu þig best

og við elskum báðir.

Þú hést Rafn, ég heiti Rafnar

því ég gæti krummans þíns.

Í öðru sæti var Árelía Ísey Benediktsdóttir, í 5.bekk í Waldorfskólanum Lækjarbotnum og í þriðja sæti varð Rayan Sharifa, 8. bekk Álfhólsskóla. 

Staða ljóðsins giska sterk

Ljóðstafurinn er veittur árlega í minningu Jóns úr Vör, fyrir besta, áður óbirta ljóðið sem sent er inn í samnefnda ljóðasamkeppni á vegum lista- og menningarráðs Kópavogs. Ef marka má áhuga og þátttöku barna og fullorðinna þessum tveimur kveðskaparkeppnum er lítil ástæða til að vera uggandi um stöðu ljóðsins, því 331 ljóð barst í keppnina um ljóðstafinn og 202 ljóð í Ljóðasamkeppni grunnskólanna.

Það kom í hlut þeirra Ástu Fanneyjar Sigurðardóttur, Eiríks Ómars Guðmundssonar og Kristínar Svövu Tómasdóttur að rýna í þessi 533 ljóð og ákvarða hvert þeirra sköruðu fram úr. 

Umsögn dómnefndar um Fasaskipti eftir Þórdísi Helgadóttur

FASASKIPTI er margrætt ljóð um umhverfingar og skil milli heima; yfirborð og himnur, mörk dags og nætur, þunnt skænið sem aðskilur veruleika okkar frá djúpinu. Í forgrunni eru börnin sem sjálf eru nýkomin úr öðrum heimi og hika ekki við að brjóta ísinn. Skáldið fangar villt og hrátt flæði orðanna og nær að veita því skýran farveg á áhrifaríkan hátt. Það gefur sér lausan tauminn en þessi lausi taumur leiðir lesandann ekki út á þekju heldur að aðalatriðum, því sem skáldinu liggur á hjarta. 

Ljóðið er í senn raunsætt og fjarstæðukennt, úthugsað en einnig leikandi áreynslulaust. Það ber með sér hömlulaust afl líkt og á eða foss. Í vissum skilningi er það á hreyfingu, merking þess gæti breyst frá degi til dags. Ljóðið hreyfist og breytist og virðist nánast iða af göldrum góðrar ljóðlistar. 

Fréttin var uppfærð kl. 10:06.

Mynd með færslu
 Mynd: Kópavogsbær
Sigurvegararnir tveir: Þórdís Helgadóttir, handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör, 2021, og Kári Rafnar Eyjólfsson, sigurvegari í Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Björk Þorgrímsdóttir hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör

Bókmenntir

Brynjólfur Þorsteinsson hlýtur Ljóðstafinn

Menningarefni

Hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör