Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Það er einhver að þykjast vera ég“

22.01.2021 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd: Ari Magg - Mugison.com
Borgar Magnason, tónlistamaður, var spenntur fyrir streymistónleikum sem hann sá auglýsta á dögunum. „Ég sá bara á Facebook að Mugison með hljómsveit væri með ókeypis tónleika í Hafnarfirði á laugardagskvöldi. Ég er spurður hvort mig langi að fara og segi já, svo mæti ég og eyði svolitlum tíma í að reyna að finna þetta streymi, þangað til ég fer að spyrjast fyrir og þá reynist þetta bara hafa verið eitthvert svindl,“ segir Borgar.
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot/Facebook
Skjáskot af Facebook-síðunni þar sem tónleikarnir voru auglýstir.

Þetta er bara eitthvað rugl, áréttaði Örn Elías Guðmundsson, Mugison sjálfur síðar á Facebook-síðu sinni. „Ég var búinn að heyra af þessu frá konunni hans pabba, henni Dóru. Að hún ætlaði að horfa á tónleika með mér og ég verð nú að viðurkenna, ég hugsaði fyrst heyrðu ég er kannski búinn að lofa mér á eitthvað streymi og er að gleyma því. Ég tékkaði nú ekki strax á þessu, fyrr en eftir kvöldmat, þá mundi ég þetta aftur, þá sá ég að þetta var einhver The Mugison, tónlistamaður með mynd af mér sem ætlaði að vera með streymi. Það var sérstakt,“ segir Örn Elías.  

Óþægilegt að fólk reyni að höfða til aðdáenda

The Mugison ásamt hljómsveit. Ákveðni greinirinn The stakk svolítið í stúf. Það er óljóst hvað þeim óprúttna gekk til, því það var hvorki hlekkur á streymið né farið fram á greiðslu. Svo virðist sem hann hafi bara viljað vera með leiðindi. 

Mugison hefur áður lent í því að fólk þykist vera hann á samfélagsmiðlum. „Þá hefur það sett sig í samband við fólk sem hefur lækað mig á þessum samfélagsmiðlum og verið að biðja um pening.“

Honum finnst óþægilegt að þessir svindlarar reyni að höfða sérstaklega til aðdáenda hans og fólks sem er vinveitt honum.

Tilkynnti síðuna

Mugison brást við atvikinu á laugardaginn var með því að tilkynna atvikið til stjórnenda Facebook og fá aðdáendur sína í lið með sér. „Maður getur reporterað svona og þá spyr Facebook af hverju maður er að reportera og þá sagði ég, það er einhver að þykjast vera ég.“ 

Hrefna Sif Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Tix.is kannaðist ekki við það að fleiri hefðu lent í svona atviki. Það er spurning hvort svona gabbviðburðir færist í aukana nú á tímum heimsfaraldurs þegar fjöldi tónlistarmanna reynir að framfleyta sér með streymi.

Þóttust vera Páll Óskar

Í nóvember á síðasta ári varaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu við svikahröppum sem hefðu komið fram í nafni Páls Óskars Hjálmtýssonar, söngvara, í þeim tilgangi að hafa fé af fólki og fá um það persónulegar upplýsingar.  Í færslu á Facebook-síðu embættisins sagði að dæmigert sé að nota jafn viðkunnanlegan mann og Pál Óskar í þessum tilgangi.