Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stöðvuðu fjölmenna brúðkaupsveislu

22.01.2021 - 14:53
epa08913157 Police officers control along the Embankment in London, Britain, 31 December 2020. New Year's Eve celebrations are not taking place in London due to coronavirus restrictions. The UK government is encouraging people to stay home as Covid-19 cases continue to surge.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Breska lögreglan greindi frá því í dag að hún hefði í gærkvöld stöðvað brúðkaupsveislu í Lundúnum sem í voru um það bil fjögur hundruð gestir. Samkvæmt sóttvarnarreglum á Englandi eru brúðkaup einungis leyfð í undantekningartilvikum og gestirnir mega ekki vera fleiri en sex.

Brúðkaupsveislan var haldin í skóla í hverfinu Stamford Hill þar sem fjöldi strangtrúaðra gyðinga býr. Gluggar skólans höfðu verið byrgðir til þess að ekki sæist það sem fram fór innan dyra.

Skipuleggjandi veislunnar á yfir höfði sér tíu þúsund sterlingspunda sekt, hátt í eina komma átta milljónir króna. Flestir gestirnir náðu að flýja þegar þeir urðu lögreglunnar varir. Fimm sem voru gómaðir verða sektaðir um tvö hundruð pund, rúmlega 35 þúsund krónur.

Í yfirlýsingu frá skólanum segir að fólkið hafi fengið sal að láni en ekkert hafi komið fram um hvað stæði til. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV