Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Skora á ríkisstjórnina að samþykkja kjarnorkuafvopnun

Mynd með færslu
 Mynd: Pierre J. - Flickr.com
Samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum tekur gildi í dag og hafa fimmtíu aðildarríki samþykkt hann. Ísland er ekki þeirra á meðal. Tuttugu og tvö félagasamtök, auk Biskupsstofu, skora á íslensk stjórnvöld að fullgilda samninginn. 

Alls samþykktu 122 aðildarríki samninginn á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í júlí 2017. Með honum er fest í sessi afdráttarlaust bann við notkun kjarnorkuvopna og á að tryggja að öllum slíkum vopnum verði eytt, bann verði sett við framleiðslu þeirra, flutningi, þróun, prófun, geymslu og hótunum um notkun þeirra.

Skorað er á íslensk stjórnvöld að fullgilda samninginn. Alls standa tuttugu og tvö félög að þessari áskorun auk Biskupsstofu.

 • Alda félag um sjálfbærni og lýðræði
 • Alþýðusamband Íslands
 • Íslandsdeild Amnesty International
 • Barnaheill
 • Biskupsstofa
 • Hjálparstarf kirkjunnar
 • Húmanistahreyfingin
 • Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands
 • Kvenréttindafélag Íslands
 • Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
 • Landssamtökin þroskahjálp
 • Læknafélag Íslands
 • Mannréttindaskrifstofa Íslands
 • Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna
 • Náttúruverndarsamtök Íslands
 • Rauði krossinn á Íslandi
 • Samtök hernaðarandstæðinga
 • Samtökin 78
 • Siðmennt
 • Soka Gakkai International á Íslandi
 • UNICEF á Íslandi
 • UN Women á Íslandi
 • Öryrkjabandalag Íslands

Í yfirlýsingu þeirra segir að samningurinn undirstriki þá miklu hættu sem stafi af tilvist kjarnorkuvopna og þeim óafturkræfu afleiðingum sem þau valda. Vitnað er í niðurstöður könnunar sem Íslandsdeild alþjóðlegra samtaka um afnám kjarnorkuvopna, ICAN, lét gera og leiða í ljós að mikill meirihluti aðspurðra er hlynntur því að samningurinn taki gildi. Sjötíu og fimm prósent vildu að Ísland verði fyrst ríkja í Atlantshafsbandalaginu til að skrifa undir og fullgilda samninginn. 

Kjarnorkuvopn hafa í för með sér óafturkræfan eyðileggingarmátt. Engin læknis- eða mannúðaraðstoð er möguleg strax í kjölfar kjarnorkuárásar. Til frambúðar hefur slík árás skelfilegar afleiðingar fyrir mannfólk, dýraríki, umhverfi og loftslag, svo ekki sé minnst á neikvæð áhrif á landbúnaðarframleiðslu, ásamt skyndilegri hitalækkun og minnkun úrkomu á heimsvísu vegna reyks og rykmyndunar. Bann við kjarnorkuvopnum er því eina tryggingin gegn notkun slíkra vopna og þeim afleiðingum sem notkun þeirra hefur í för með sér.

Í tilkynningunni segir ennfremur að íslensk stjórnvöld séu hvött til þess að fara að vilja almennings og stíga skref í átt að fullgildingu samningsins. 

 

Fréttin hefur verið uppfærð. Félagði Höfði bættist í hóp þeirra félaga sem standa að áskoruninni.