Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sex með stöðu sakbornings eftir árás í Borgarholtsskóla

Mynd með færslu
 Mynd: Höskuldur Kári Schram - RÚV
Sex hafa stöðu sakbornings í rannsókn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á hnífaárás í Borgarholtsskóla þann 13. janúar. Þetta staðfestir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu. Hann segir að rannsóknin gangi vel en að enn þurfi að yfirfara mikið af gögnum.

Mbl.is fjallaði um þetta síðdegis. Sex voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar eftir árásina en enginn særðist alvarlega. Þrír voru handteknir og einn úrskurðaður í gæsluvarðhald, þótt lögregla hafi farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim öllum. Sá var svo látinn laus eftir að Landsréttur sneri við gæsluvarðhaldsúrskurðinum.