Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sement fór á 250 bíla og 70 hús þegar síló yfirfylltist

22.01.2021 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
250 bílar hafa verið sýruþvegnir og tilkynnt hefur verið um tjón á 70 húsum eftir að sement gaus úr tanki Sementsverksmiðjunnar á Akranesi fyrr í mánuðinum. Talið er að meira sement hafi losnað út í andrúmsloftið en áætlað var í fyrstu.

Sementstankurinn yfirfylltist þegar dælt var í hann úr flutningaskipi í höfninni. Um 70 tilkynningar hafa borist um tjón vegna sementsfoks á fasteignir á neðri Skaga. Búið er að þrífa 25 hús, þau sem fengu einna mest yfir sig, en gera þurfti hlé á þrifum vegna frosts. Um 250 bilar hafa verið þrifnir eftir atvikið, þrífa þurfti þá með sýrublöndu til þess að ná efninu af. 

Það gaus úr tönkunum í lengri tíma en talið var

Sementsverksmiðjan segist nú hafa upplýsingar um að gosið hafi staðið lengur yfir en áður var talið. Því gæti meira sement hafa borist út í andrúmsloftið en áður var áætlað. Gunnar H. Sigurðsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, taldi upprunalega að það hefði verið frá 200 kílóum að tveimur tonnum. 

„Síðan hafa komið fram vísbendingar um að óhappið hafi staðið í eitthvað lengri tíma. Þegar ég mat þetta var ég ekki með neinn tíma í huga, heldur var ég bara að meta það magn sem hafði verið út frá okkur,“ segir hann. 

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Gunnar segir útilokað að 100 tonn hafi farið út

Tilgátur um að 100 tonn hafi farið út standast ekki

Gunnar segist ekki viss um hversu lengi atvikið stóð. Ekki verði hægt að meta magnið fyrr en komið er á hreint veg vítt það dreifðist. Fólk sem býr í námunda við tankana hefur getið sér þess til að allt að 100 tonn hafi farið út. Hann segist það ekki geta staðist.

„Það er alveg útilokað. við vitum ekki annað á þessari stundu en að það hafi alla vega farið út þessi 200 kíló til tvö tonn.“

Sjálfsagt sé að skoða hvort meira hafi sloppið út. Það geri fyrirtækið nú með verkfræðistofunni Eflu. Þá eigi einnig að meta loftgæði á svæðinu. Engin ástæða sé þó til að ætla að rykið sem gaus úr tanknum hafi ógnað heilsu fólks.