Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segja LSH hafa burði til að greina leghálssýni

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Félag íslenskra rannsóknarlækna lýsa yfir furðu sinni yfir þeirri ákvörðun stjórnvalda að senda sýni úr leghálsskimun erlendis. Sýni liggi órannsökuð í kössum á meðan ekki sé búið að semja við rannsóknarstofu í Danmörku. Þá sé tækjabúnaður til staðar á Landspítala til að greina sýnin. Heilbrigðisráðuneyti segir sýnin send utan til að tryggja öryggi og gæði rannsókna og stytta svartíma.

Krabbameinsleit í leghálsi var um áramótin færð yfir til heilsugæslustöðva. 2000 sýni sem búið var að taka í lok seinasta árs hafa ekki verið greind, en á dögunum náðust samningar um að dönsk rannsóknarstofa greini þau sýni. Samningur um framhaldið er sagður vera á lokametrunum. Félag rannsóknarlækna hér á landi leggjast gegn því að greining sýna fari úr landi, og segja að skipulagsbreytingarnar hafi ekki verið skoðaðar í þaula.

„Krabbameinsfélagið hefur síðan 1964 séð um skimun fyrir leghálskrabbameini. Þar störfuðu þar til um síðustu áramót sérþjálfaðir frumugreinar og sérfræðilæknir með áralanga reynslu í skimun frumusýna frá leghálsi, en hefur nú verið sagt upp störfum,“ 

„Furðu vekur að svo viðamikil skipulagsbreyting hafi verið gerð án þess að samningur um áframhaldandi skoðun sýnanna lægi fyrir. Eins og staðan er í dag þyrfti að gera ýmsar ráðstafanir til að Landspítalinn gæti tekið að sér þessar rannsóknir enda skortir tækjakost, sérhæft starfsfólk og húsnæði. Félag íslenskra rannsóknarlækna veit ekki til þess að grundvöllur fyrir slíkum breytingum hafi verið kannaður í þaula og telur að sú fullyrðing að spítalinn hafi ekki burði til að taka að sér þessar rannsóknir standist varla,“ 

Þá segir félagið að hér á landi séu tæki og sérfræðiþekking til að greina HPV próf, sem valda nær öllum forstigsbreytingum og krabbameinum í leghálsi.

„Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans hefur tæki og sérfræðiþekkingu í því að greina HPV veiruna í sýnum og hafði verið að sinna þeim greiningum fyrir Krabbameinsfélagið. Deildin fékk nýlega afkastamikið PCR greiningartæki (Cobas 8800), sem gæti auðveldlega annað HPV greiningum í tengslum við skimanir fyrir leghálskrabbameini. Það verður því ekki séð að gera þyrfti þessar greiningar erlendis, eins og virðist standa til. Félag íslenskra rannsóknarlækna varar við því að frumusýni frá leghálsi verði flutt úr landi til greiningar. Hér á landi er til staðar áralöng og yfirgripsmikil sérþekking á skoðun þessara sýna sem mikil synd væri að missa úr landi. Það fagfólk sem hingað til hefur sinnt skimunum hjá Krabbameinsfélaginu mun leita í önnur störf og það er því ljóst að erfitt gæti orðið að færa skimunina aftur til landsins,“ segir í tilkynningu frá félaginu. 

Á vef Stjórnarráðsins var birt tilkynning í morgun um tilfærsluna. Þar kemur fram að með henni sé höfuðáhersla lögð á að tryggja öryggi og gæði frumurannsókna á leghálssýnum.

„Miðað við erlend gæða- og öryggisviðmið var ljóst að erfitt yrði að tryggja öryggi og gæði þessara rannsókna hér á landi. Í Danmörku er mælt með að hver rannsóknarstofa rannsaki minnst 25.000 sýni árlega til að viðhalda færni sérhæfðs starfsfólks og tryggja þannig gæði og öryggi úrlesturs sýnanna. Í Svíþjóð er miðað við 16.000 sýni að lágmarki. Hefðbundnar frumurannsóknir hafa verið um 27.000 á ári hér á landi en með innleiðingu HPV mælinga hjá heilsugæslunni fækkar þeim niður í 7.000 strax á þessu ári og enn frekar á komandi árum. HPV veirupróf er næmari rannsókn en hefðbundin frumuskoðun og er miðað við að HPV veirupróf verði almenna reglan hér á landi í stað frumuskoðunar,“ segir í tilkynningunni.