Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óttast að færsla hringvegar skaði fuglalíf

22.01.2021 - 14:09
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin - RÚV
Félagið Fuglavernd óttast að verði af fyrirhugaðri færslu hringvegar um Mýrdal niður að Dyrhólaós, hafi það slæm áhrif á búsvæði fugla. Hagsmunasamtök og íbúar í Mýrdal hafa mótmælt framkvæmdinni sem er inni í samgönguáætlun. Í henni felst meðal annars að gera þarf göng í gegnum Reynisfjall. Fuglavernd segir að nýi vegurinn fari á köflum inn á friðland og óttast að það geti haft varanleg og skaðleg áhrif á Dyrhólaós og fuglalíf.

Vegagerðin hefur birt drög að matsáætlun umhverfismats og rennur frestur til að skila inn umsögnum út um mánaðamótin. Trausti Gunnarsson, stjórnarmaður í Fuglavernd, segir að félagið vinni að umsögn. 

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar hefur aðeins verið tryggt fjármagn til undirbúnings vegagerðarinnar en ekki fyrir framkvæmdinni sjálfri. Gert er ráð fyrir að hluti af fjármögnuninni komi frá einkaaðilum til að mynda með veggjöldum. Fram kemur í drögunum sem Vegagerðin birtir að markmiðið með því að færa hringveginn sé að gera veginn greiðfærari en torvelt sé á vetrum að aka upp brekkurnar í Mýrdal.

Dyrhólaós á náttúruminjaskrá

Fuglavernd hefur látið gera úttekt á fuglalífi við Dyrhólaós. Hann er á náttúruminjaskrá og listaður sem einu sjávarleirurnar á Suðurlandi. Hann gegnir mikilvægu hlutverki á varptíma og á haustin.

Trausti segir að ekki sé unnt að skýla sér á bak við það að aðeins lítið verði tekið af sjávarleirunum vegna vegagerðarinnar. Margar vegaframkvæmdir hafi gengið mjög á búsvæði fugla á sjávarleirum, til að mynda Gilsfjörður. Mikilvægt sé að ekki verði sífellt gengið meira á leirurnar.

Úttektar á fuglalífi ekki getið

Trausti furðar sig á því að úttektar Jóhanns Óla Hilmarssonar, fyrrverandi formanns Fuglaverndar, sé ekki getið í drögum að matsáætlun. Niðurstöður skýrslu Jóhanns Óla séu þær að það geti haft varanleg og skaðleg áhrif á Dyrhólaós að færa veginn að honum.

Fuglar noti svæðið og svæðið í kring til að næra sig og hvíla. Trausti segir að veglagningin geti haft áhrif á fuglalíf töluvert út fyrir það svæði sem vegurinn verður lagður á. Hann bendir á að landið fyrir ofan ósinn hafi á árum áður verið framræst en það hafi að töluverðu leyti gengið til baka. Hins vegar þurfi að framræsa að nýju verði vegurinn verður lagður við ósinn. Það sé fuglalífi í óhag.

Vegurinn fer inn á friðland

Trausti segir að miðað við kort af veglagningunni liggi vegurinn inn á friðlandi á nokkrum stöðum. Hann segir að skoða verði hvaða áhrif þetta geti haft á vatnabúskap í leirunum og ósnum.

Fuglavernd leggur áherslu á að í mati á umhverfisáhrifum verði tekið fullt tillit til fuglalífs og verndargildis Dyrhólaóss, segir Trausti.