Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Meðferðarheimilinu að Laugalandi í Eyjafirði lokað

22.01.2021 - 17:12
Mynd með færslu
 Mynd: Barnaverndarstofa - RÚV
Félagið sem rekur meðferðarheimilið að Laugalandi í Eyjafirði hefur sagt upp samningi við Barnarverndarstofu. Starfsemi verður ekki boðin út aftur og því verður heimilinu lokað.

Á Laugalandi er einkarekið meðferðarheimili fyrir stúlkur sem starfrækt er samkvæmt rekstrarsamningi við ríkið, undir eftirliti og yfirstjórn Barnaverndarstofu.

Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu, segir að samningur við félagið Pétur G. Broddason ehf. sem rekur meðferðarheimilið hafi gilt til ármóta. Þegar unnið hafi verið að nýjum samningi milli jóla og nýárs hafi félagið sagt samningum upp.

Heiða segir Barnaverndarstofu ekki geta yfirtekið reksturinn með beinum hætti. Það yrði að bjóða út starfsemina. Það sé hinsvegar hvorki faglega né fjárhagslega skynsamlegt. Því sé ljóst að heimilinu verði lokað.

Ekki náðist í Pétur G. Broddason, framkvæmdastjóra að Laugalandi, við vinnslu fréttarinnar.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV