Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Gul viðvörun vegna norðanhríðar nyrðra og eystra

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun vegna yfirvofandi norðanhríðar á Ströndum, Norðvesturlandi, Norðausturlandi og Austurlandi að Glettingi. Spáð er norðankalda eða stinningskalda, 10 - 18 metrum á sekúndu með skafrenningi og éljagangi, sem spilla skyggni og færð, einkum á fjallvegum.

Óvissustig gildir áfram vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi og hættustig á Siglufirði með rýmingum.  Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra varar við truflunum á samgöngum og hvetur fólk til að fylgjast vel með á vef Vegagerðarinnar

Veðurhorfur á landinu til miðnættis annað kvöld eru þær að gert er ráð fyrir 8 til 15 metrum á sekúndu fram eftir degi. Síðdegis er búist við stinningskalda, allhvössum vindi eða hvassviðri, 10 til 18 metrum á sekúndu. Sumstaðar syðra slær í hvassara í vindstrengjum.

Norðan til verða él eða snjókoma en bjart sunnan heiða. Spáð er samfelldri snjókomu Norðaustan og Austanlands, þurrt verður þó að kalla um landið Sunnanvert en annars él, heldur hvassara veður.

Frost verður allt að sex stigum en þó frostlaust allvíða syðst og austast á landinu. Næstu daga spáir Veðurstofan ákveðnum norðan- og norðaustanáttum með snjókomu eða éljum þó lengst af úrkomulítið syðra. Frost verður um allt land.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV