Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Gucci í samstarf við Gus Van Sant

Mynd: gucci / gucci

Gucci í samstarf við Gus Van Sant

22.01.2021 - 20:00

Höfundar

Listrænn stjórnandi Gucci vill fækka fatalínum, sleppa útsölum og hætta að hanna föt eftir kyni. Framtíðarsýn hússins birtist í samstarfi Gucci við bandaríska leikstjórann Gus Van Sant.

Eitt af því sem farsóttin hefur haft áhrif á, eru stóru tískuhúsin úti í heimi sem nokkurn veginn stjórna því hvað hangir á fataslánum í búðum um allan heim. Stórar tískusýningar sem vanalega eru aðdráttarafl helstu tískuborga heims hafa verið blásnar af eða eru haldnar með breyttu sóttvarnarsniði. Eitt stærsta og valdamesta tískuhús heims, Gucci, fann þó leið til að snúa vörn í sókn og í stað þess að taka þátt í síðustu tískuviku í Mílanó ákvað listrænn stjórnandi hússins að blása til kvikmyndahátíðar á Youtube, þar sem fötin yrðu sýnd í splunkunýju samhengi. 

Í lok ársins sem var að líða frumsýndi Gucci kvikmyndahátíðina sem einnig var tískusýning á Youtube-síðu tískuhússins. Þar sýna fimmtán ungir og efnilegir hönnuðir og leikstjórar sköpunarverk sín en aðalnúmerið var samstarf listræns stjórnanda Gucci, Allessandro Micheles og Gus Van Sant.

Sjö þátta sería af mislöngum stuttmyndum, sem kallast  Ouverture Of Something That Never Ended eða Inngangur að einhverju sem endaði aldrei. Fyrsta myndin er átján mínútna löng og hverfist um Silviu Calderoni, ítalska leikkonu frá Róm sem einnig er dansari, rithöfundur og plötusnúður, en einnig er hún þekkt á Ítalíu og víðar, fyrir að skilgreina sig hvorki sem konu né karl, þó hún noti kvenkyns nafn og persónufornafn.  

Silvia vaknar á heimili sínu í Róm og gerir það sem fólk gerir heima hjá sér, pissar, tannburstar sig, vökvar blóm, horfir á sjónvarp og gerir jógaæfingar. En ólíkt flestum venjulegum þá gerir hún þetta allt í stórkostlegum Gucci dressum. Handritið, sem er skrifað af Michele sem einnig er aðstoðarleikstjóri, er ekki drifið áfram af atburðum heldur fylgjumst við með þessari glæsilegu mannveru athafna sig. 

En það gerist samt töluvert inni á fagurlega stíliseruðu ítölsku heimilinu þar sem Silvia vaknar í galla úr gegnsærri svartri blúndu og byrjar daginn á því að klæða sig í gyllta hæla. Hún kveikir á sjónvarpinu og þar birtist spænski heimspekingurinn og kynjafræðingurinn Paul B. Preciado. Preciado, sem var úthlutað kvenkyni við fæðingu en fékk kynleiðréttingu síðar á ævinni, hefur verið kallaður pönk trans heimspekingur okkar tíma, kannski hin nýja Judith Butler. Auk þess að kenna kynjafræði í París og skrifa bækur og pistla í frönsk dagblöð, starfar hann sem sýningarstjóri, meðal annars á nýlistasafninu í Barcelona. Í sjónvarpinu heima hjá Silviu sjáum við Preciado flytja fyrirlestur um kynþætti og fordóma, kyn og kyngervi og líf handan tvíhyggjunnar.

Hann endar á að beina orðum sínum beint, úr sjónvarpinu og inn í stofu, til Silviu, og segja henni að nýir tímar muni fyrst og fremst snúast um ást. Silvia hlustar samviskusamlega og tekur niður punkta á blað sem hún svo setur ofan í svarta leðurtösku, með gulllás með Gucci áletrun. Því næst gengur hún út á svalir og hendir þaðan fögrum næfurþunnum blómakjól, sem svífur fagurlega til jarðar undir lagi Billie Eilish, Therefore I am.

Hugmyndin er frá Michele en útfærslan er í höndum Van Sant, sem er auðvitað fullkomið val fyrir þetta efni. My own Private Idaho er fyrir löngu orðin að költklassík í heimi hinsegin pælinga og Van Sant hefur bent á líkindin milli þessa verkefnis og þeirrar myndar. Draumkenndur veruleiki þar sem atriðin hvorki byrja né enda í ákveðnum punkti, myndin er borin uppi á stemningu og tilfinningu miklu frekar en sögulegri framvindu. Ofan á þetta bætast svo súrrealískir og fellinískir tónar, eins og að talsetja leikara eftir á með ítölskum röddum, sem er auðvitað ekki tilviljun þegar sögusviðið er Rómar, borgin eilífa og borg Fellini. 

Í stuttmyndunum fer Silvia út um borg og bý þar sem fólk af öllum stærðum og gerðum, og oftar en ekki með óljóst kyn, klæðist Gucci fötum. Hún hittir vini og kunningja, fer í búðir, á pósthús, í leikhús og nýtur lífsins í hinni eilífu borg, ekkert gerist og allt gerist, en fyrst og fremst sjáum við falleg föt í fallegu umhverfi á fólki sem lítur alls ekki út eins og hið týpíska karl og kven súpermódel, auk þess sem í hverri mynd leikur að minnsta kosti ein súperstjarna. Þetta er auðvitað fyrst og fremst auglýsing en á sama tíma tískusýning og á sama tíma ljóðræn og súrrealísk hugleiðing um listasöguna, tískuna og kyngervi. 

Það sem við klæðumst hefur alltaf sagt mikið um það hver við erum. Föt og tískustraumar hafa alltaf átt þátt í að móta upplifun okkar af kyni og ýtt undir hugmyndir okkar um karlmennsku og kvenleika. Föt eru á einhvern hátt eins og félagsleg tákn sem líkamar okkar klæðast, og líkt og Preciado hefur einmitt bent á væri ómögulegt að skilja karlmennsku án buxna og kvenleika án blómakjóla. En á sama tíma getur tískan líka verið, og hefur verið, til dæmis á sjöunda áratugnum, tæki til að trufla þessi mörk milli kynjanna. Með því að breyta sniðum, deila kjólum og jakkafötum, og setja varalit á allar varir, var á þeim tíma gerð tilraun til að útmá allar skilgreiningar. Tískan getur verið spennandi vettvangur fyrir pólitíska tilraunamennsku og það er hluti af því sem teymið er að gera með samstarfi sínu. 

Allesandro Michele lærði fatahönnun í heimaborg sinni Róm, og vann fyrir Fendi og Karl Lagerfeld áður en hann var ráðinn til Gucci árið 2002. Þar vann hann í upphafi við að hanna töskur en 13 árum síðar var hann orðinn listrænn stjórnandi hússins, með skýra sýn á hvert hann vildi fara. Hann hefur verið lofaður fyrir að endurvekja merkið, sem á sér 100 ára sögu, og færa það nær nútímanum, ekki síst með vísunum í klassíska Gucci-hönnun í bland við í götutísku, blanda sem hefur heldur betur fallið í kramið því Gucci hefur aldrei verið vinsælla merki, ekki síst meðal ungs fólks, og aldrei malað meira gull. 

En á sama tíma hefur Michele talað um að það þurfi ekki bara að endurnýja gömlu tískuhúsin heldur allt kerfið sem hringrás tískunnar byggi á. Fimm eða fleiri tískusýningar á ári, nýtt inn og gamalt út með tilheyrandi útsölum og óafturkræfum umhverfisáhrifum fyrir móður jörð. En það getur verið erfitt að breyta til þegar formúlan virkar og malar meira gull en áður. 

En svo skall á farsótt, með tilheyrandi áskorunum og stuttu síðar tilkynnti Michele að hann myndi takast á við krefjandi  áskoranir með gömlum draumum, héðan í frá myndi Gucci ekki taka þátt í tískuvikunni í Mílanó og aðeins bjóða upp á tvær línur á ári, í stað fimm.

Í viðtali sem birtist við Michele í síðasta helgarblaði hins spænska El País, segist hann aldrei aftur ætla að láta sér leiðast. Tískan eigi ekki að vera leiðinleg og fyrirsjáanleg, heldur óvænt og skemmtileg. Farsóttin hafi breytt tískunni til frambúðar, sem sé erfitt að mörgu leyti, en fyrst og fremst gleðiefni. Hann hafi fyrir löngu verið orðinn leiður á hinni hefðbundnu tískusýningu, þar sem módel ganga niður svið bara til að sýna föt. Afhverju ekki að nýta sviðið til að gera eitthvað aðeins meira skapandi?

„Ég held að eitthvað hafi breyst í menningu okkar síðustu mánuði, heldur hann áfram í fyrrnefndu viðtali. Við getum ekki farið aftur þangað sem við vorum. Framundan er nýtt upphaf. Mín kynslóð ólst ekki upp við heiðarleika. Unga kynslóðin elskar Billie Eilish, ekki bara vegna þess að hún er stórkostleg söngkona heldur líka vegna þess að hún lætur ekki eins og díva, hún er einlæg og heiðarleg. Hún, líkt og margir af hennar kynslóð, er ekki hrædd við að vera hún sjálf og það er alveg nýtt.” 

Og þetta er það sem listrænn stjórnandi Gucci vill boða í sinni sköpun; heiðarleika,sjálfstraust og einlægni. Og nýta til þess sviðið sem stendur honum til boða, sem einn valdamesti maður tískuheimsins. Að hans sögn er tími módela sem sitja hreyfingarlaus í stól með tösku í hendi liðinn. 

Aðspurður hvort tískan eigi að vera pólitísk, segir hann að ekki sé hægt að komast hjá því, því allt sé pólitískt. Og það er auðveldlega hægt að taka undir það. Að ákveða að nota völd sín til að tjá sig er pólitík, að velja módel sem eru ekki hvít er pólitík, að ákveða að skipta fatalínu ekki milli tveggja kynja heldur gera eina sameiginlega línu er pólitík og að taka ekki þátt í útsölum er pólitík, og allt þetta hefur Gucci ákveðið að gera. Að svo stórt tískumerki taki af skarið er að einhverju leyti auðvitað svar við tíðarandanum, og önnur leið til að mala ennþá meira gull, en á sama tíma hefur Gucci, í samneyti við hin stóru tískuhúsin dregið vagninn hvað strauma og stefnur í heimi fjöldaframleiðslu varðar, og ef þetta eru áherslur framtíðarinnar, að láta módelin tala við kynjafræðinga undir leikstjórn Gus van Sant, í ókeypis streymi fyrir alla, í stað staðnaðra tískusýninga fyrir örfáa, er það bara fínasta skref í góða átt.