Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fulltrúar minnihluta gegn byggingu húss við Furugerði

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn byggingu þrjátíu íbúa húss við Furugerði 23 á fundi borgarráðs í gær. Rökin byggðu á andstöðu íbúa sem meðan annars telja umferð og hraðakstur í hverfinu aukast vegna þessa nýja húss.

Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins lögðust einnig gegn tillögunni sem var samþykkt af fulltrúum meirihlutans, Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna.

Í bókun meirihlutans segir að uppbygging á lóðinni hafi lengi staðið til og að með mótvægisaðgerðum megi draga úr umferðarhávaða frá Bústaðavegi.

Gert er ráð fyrir að bílastæði hússins verði í kjallara en gestastæði á lóðinni en svæðið er sagt vel í sveit sett varðandi hjóla- og almenningssamgöngur.

Rök áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins byggðu á yfirlýstum ugg íbúa í götunni og íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis um að byggingamagn á lóðinni verði alltof mikið enda standi til að margfalda það miðað við aðalskipulag.

Því muni þrengja enn frekar að umferð um Bústaðaveg en engin áform séu uppi um að leggja undirgöng eða byggja göngubrýr yfir götuna.

Sömuleiðs hafa íbúar áhyggjur af því að hús þeirra kunni að skemmast þegar sprengt verður fyrir bílakjallara því grunnt sé niður á klöpp.

Eins eru uppi áhyggjur um skort á bílastæðum og takmarkað rými fyrir gangstéttir. Í bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins segir að nú þegar sé skortur á bílastæðum.

Skipulagsyfirvöld þurfi að sætta sig við að allir geti ekki nýtt sér bíllausan lífsstíl og of langt sé gengið í fyrirhyggjusemi skipulagsyfirvalda varðandi það hvernig fólk fari milli staða í borginni, segir í bókun borgarráðsfulltrúa Flokks fólksins.

Málið fer nú til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar.