Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Draugaverkir í handleggjum og fingrum hafa magnast

Mynd með færslu
 Mynd: Sylwía Grétarsson - RÚV
Guðmundur Felix Grétarsson, sem fékk grædda á sig handleggi og axlir fyrir rúmri viku, segir vera kominn með einhverja tilfinningu í hendurnar en erfitt sé að átta sig á því hvort það séu draugaverkir eða eitthvað annað. Guðmundur er nú á fjarfundi með íslenskum blaða- og fréttamönnum þar sem hann liggur í sjúkrarúmi á spítala í Lyon í Frakklandi. Guðmundur komst við á fundinum þegar hann gladdist yfir því að nú væri langþráð ósk uppfyllt um að fá nýja handleggi.

Guðmundur Felix segir að læknarnir hafi verið mjög ánægðir með aðgerðina. 

Þegar hann vaknaði hefði honum liðið afskaplega illa og hann hefði hugsað: „Hvers konar fáviti fer í svona viljandi.“ Honum hafi liðið eins og tveir trukkar hafi hvílt á öxlum hans. Sársaukinn hafi verið mjög mikill. En núna sé honum farið að líða betur. Þá hafi hann þurft að vera í sömu stellingu frá því hann vaknaði og ekkert mátt fara á fætur.

Hreyfði upphandlegg

Guðmundur hreyfði upphandlegg fyrir fréttamenn. Hann segir að í fyrstu hafi honum fundist þetta líkjast dúkkuhöndum en núna sé hann að venjast þeim. 

En er hann kominn með tilfinningu í handleggina?

Guðmundur segir að frá því að hann missti hendurnar hafi hann alltaf getað fundið fyrir fingrum, verið með draugaverki, eins og flestir sem missa útlimi. „Þessi tilfinning hefur vaxið mikið. Ég er stundum að fá svakalega stingi eins og þegar tannlæknir borar í taug. Stundum þegar sjúkraþjálfarar eru að hreyfa hendur og beygja fingur þá finn ég það aðeins. En ég finn ekki þegar einhver strýkur þeim,“ segir Guðmundur. 

Æð stíflaðist

Hann segir að eftir aðgerðina hafi komið komið upp lítils háttar vandkvæði. Æð hafi stíflast í hálsinum á honum. Því hafi þurft að taka æðar úr fótlegg og setja í hálsinn og þess vegna hafi hann þurft  blóðþynningalyf. 

Guðmundur segir að endurhæfingin taki um þrjú ár. Taugarnar vaxa um millimetra á dag og því eru þær um þrjú ár að ná fram í fingurgóma. Eftir ár gæti hins vegar verið komin tilfinning og hreyfigeta um olnboga. Það eru 23 ár síðan Guðmundur missti handleggina. Miðað við þessa löngu bið eftir handleggjum séu þrjú ár til viðbótar ekki neitt sem muni um.

Guðmundur Felix segir að vissulega skipti það hann máli að vera útlits eins og flest annað fólk. Það hafi vissulega haft áhrif á hann að vera ólíkur öðrum. „Að geta ekki keypt sér jakka heldur að vera gangandi kókflaska. Það er alls staðar starað á mann. Ég tala ekki um þegar maður fer á ströndina,“ segir Guðmundur.