Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bjartsýnn á að hægt verði að létta á takmörkunum fyrr

22.01.2021 - 14:09
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist vera bjartsýnn á að hægt verði að aflétta innanlandstakmörkunum fyrir 17. febrúar. Það megi þó lítið út af bregða til að smit fari á flug á nýjan leik. Eitt partý geti komið af stað nýrri bylgju.

Innanlandssmitum hefur fækkað jafnt og þétt frá því að þriðja bylgja faraldursins gekk yfir. Það sem af er ári hafa ekki greinst fleiri en 10 á dag innanlands. Vel gekk að halda faraldrinum í skefjum yfir jól og áramót. Búið er að setja það sem skilyrði að þeir sem koma til landsins þurfa að fara í tvöfalda skimun, en hafa ekki lengur val um að fara í 14 daga sóttkví eins og áður. Eftir jólin greindust þó nokkur smit við landamærin, en seinustu daga hefur þeim fækkað hratt, enda hefur dregið verulega úr ferðalögum til landsins.

Þurfum að bíða og sjá 

Fyrir rúmri viku tóku gildi nýjar reglur innanlands. Íþróttastarf, menningarstarfsemi og skólahald er leyfilegt með vissum takmörkunum. Þá er einnig leyfilegt að opna líkamsræktarstöðvar með takmörkunum þó. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir enn of snemmt að leggja fram frekari tilslakanir, en kveðst bjartsýnn á að hægt verði að létta þeim fyrr en 17. febrúar, en núgildandi reglur innanlands gilda þangað til.

„Við eigum eftir að sjá hvort að þær tilslakanir sem tóku gildi fyrir viku, hvort að þær skili sér í auknu smiti. Það er ekki að sjá eins og staðan er núna en við þurfum að bíða og sjá, við þurfum að vera viss um það áður en við förum að hugleiða það að slaka eitthvað frekar á. Ef þetta heldur svona áfram, svona fá smit þá munum við skoða það hvort að það eigi að slaka eitthvað fyrr á, eða leggja það til,“ segir Þórólfur.

Hann segir að til þess að hægt verði að slaka á þurfi nokkur atriði að vera í lagi, ekki sé nóg að smit séu sárafá. Hann hafi áður gert grein fyrir því í minnisblaði sínu.

„Það eru níu atriði sem þarf að taka tillit til þegar maður er að skoða takmarkanir, hvort að það eigi að létta á eða herða. Það er ekki bara eitthvað exel skjal sem maður setur inn í,“ segir Þórólfur. 

Rangur maður, á röngum tíma, í vitlausu húsi

Hann segist vera vongóður um að smit haldist áfram í lágmarki. Jól og áramót hafi gengið vel og það sé einlæg von hans að svo verði áfram. Það sé þó stutt á milli hláturs og gráturs.

„Það þarf sáralítið til. Það þarf ekki nema eina veislu eða partý þar sem rangur maður er á röngum tíma á röngum stað með smit, þá getur þetta  breiðst út mjög hratt. Þetta er allt voða viðkvæmt þannig en þetta hefur gengið mjög vel. Auðvitað er maður ánægður með það,“ segir Þórólfur.