Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Auðvitað hlusta ég ekki á svona blaður“

Mynd: EPA-EFE / AP POOL

„Auðvitað hlusta ég ekki á svona blaður“

22.01.2021 - 19:25
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari Íslands í handbolta var stoltur af frammistöðu íslenska liðsins, þrátt fyrir tveggja marka tap á móti sterku liði Frakklands á HM í kvöld, 28-26. Guðmundur var hins vegar ómyrkur í máli í garð sérfræðinga RÚV, Arnars Péturssonar og Loga Geirssonar í mikilli eldræðu sinni.

„Ég verð að játa það að ég er mjög stoltur af liðinu. Ég verð að segja það að þetta var stórkostleg barátta í liðinu, ofboðslegur karakter og vilji. Þetta var upplifun fyrir mig. Ég hef bara ekki oft gengið í gegnum svona mót á þennan hátt. Varnarleikurinn er búinn að vera algjörlega stórkostlegur. Við erum núna búnir að tapa því miður þremur leikjum á móti mjög góðum liðum með einungis tveggja marka mun. Ég er mjög stoltur af liðinu,“ sagði Guðmundur meðal annars í ítarlegu viðtali eftir leikinn í kvöld.

„Mér fannst við fara mjög vel í gegnum þennan leik, bæði varnarlega og sóknarlega. Varnarleikurinn var algjörlega frábær. Það komu svona kannski örstuttir kaflar í fyrri hálfleik þar sem þeir leystu aðeins á okkur. En við vorum búnir að laga það fyrir síðari hálfleikinn. En sóknarleikurinn var mjög góður. Ég var sérstaklega ánægður með hvað við skoruðum mikið úr hraðaupphlaupum. Það var dagskipunin og ég var mjög ánægður með það,“ sagði Guðmundur.

Óþolandi að heyra hvernig sérfræðingar RÚV tala

„Ég held að það hafi einhvern veginn losnað um einhverja spennu eftir leikinn á móti Sviss. Ég verð svo að segja það einhvern veginn aftur eins og mér líður. Það er svo furðulegt að upplifa það að fara inn í stórmót og það vantar fyrirfram þrjá lykilleikmenn og raunverulega síðan fjóra í framhaldinu. Þetta er svipað og við værum með norska landsliðið án Sander Sagosen, Christian O'Sullivan og án Harald Reinkind. Svo bætist enn einn miðjumaður við, þá er ég að tala um Hauk Þrastarson. En okkur er alltaf ýtt inn í eitthvað hlutverk sem við erum ekki akkúrat með mannskapinn til, til að klára,“ sagði Guðmundur og hélt áfram og baunaði á Loga Geirsson og Arnar Pétursson.

„Það er algjörlega óþolandi að heyra hvernig sérfræðingar RÚV eru að tjá sig um þetta á niðrandi hátt. Talandi um þetta eftir leikinn á mót Sviss að ég og liðið sé ráðalaust. Þetta eru svo niðrandi ummæli og þetta hefur farið mjög illa í hópinn og mig hvernig þetta hefur verið. Mér finnst þetta ekki eiga rétt á sér. Við skulum aðeins skoða þetta. Staðreyndirnar eru þetta og það vantar fjóra mjög mikilvæga pósta í liðið fyrirfram, vegna þess að Alexander er nánast kýldur út í leiknum á móti Portúgal,“ sagði Guðmundur og hélt áfram.

„Algjörlega óásættanlegt“

„Það eru þrír leikmenn í liðinu núna að spila sína fyrstu stórkeppni. Það eru þrír leikmenn í þessu liði sem voru í æfingabanni og gáut ekki spilað handbolta í þrjá mánuði. Við þessar aðstæður er ekki auðvelt að koma hingað og ætla sér eitthvað enn meira. Þetta eru bara staðreyndir á borðinu. Mér finnst að það þurfi að vera vitrænni umræða um þetta, en ekki verið að tala í einhverjum fyrirsögnum endalaust. Það er algjörlega óásættanlegt. Það er allt í lagi að gagnrýna, en hún þarf að vera fagleg og hún þarf að vera sanngjörn. Þá erum við alveg til í að ræða hlutina,“ sagði Guðmundur og var heitt í hamsi.

„Og talandi um ýmsa hérna í mínu liði og veltandi sér upp úr því, það er bara það sem ég sætti mig ekki við. Ég bara verð að segja það að ég ótrúlega stoltur af þessu liði. Ég er ótrúlega stoltur af þessari frammistöðu og hvernig við erum að gera þetta. Það er búið að gagnrýna mig meðal annars af öðrum sérfræðingnum og Loga Geirssyni í þrjú ár fyrir þessa vörn. Ég er búinn að fá að heyra það að þessi vörn sé svona og hinsegin og við þurfum að gera eitthvað annað. Auðvitað hlusta ég ekki á svona blaður. Þessi vörn er búin að vera í þrjú ár í mótun og þannig er vinnan á bakvið þetta og það verða menn fara að skilja. Menn verða að koma og gagnrýna liðið af einhverri sanngirni og viti. Það hefur ekki verið staðan það sem af er þessu móti,“ sagði Guðmundur Guðmundsson.