Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vonandi tímamót í samskiptum Grænlendinga og Íslendinga

Mynd: RÚV-Bogi Ágústsson / RÚV
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, afhenti í dag Guðlaugi Þór Þórðarsyni, núverandi utanríkisráðherra, formlega nýja skýrslu, en Össur var formaður nefndar sem gerði skýrsluna „Samstarf Íslands og Grænlands á nýjum Norðurslóðum“ að beiðni Guðlaugs Þórs. Í henni eru fjölmargar tillögur til að styrkja og efla samvinnu landanna. Guðlaugur Þór sagði í dag, er skýrslan var kynnt, að hann teldi hana marka tímamót.

Eigum að efla og styrkja samband þjóðanna

Guðlaugur Þór sagði að það hefði verið skoðun sín lengi að efla bæri og styrkja og hann teldi samskipti milli landanna. Hann teldi bæði Grænlendinga og Íslendinga almennt vera þeirra skoðunar. Margt hefði verið gert gott en sér hefði fundist vanta er að einhvern vegvísi um það hvernig ætti að vinna skipulega að styrkja og efla samskiptin.

Það hefur alltaf verið mikilvægt en nú er það algerlega nauðsynlegt. Það er engin vafi og hver sá sem skoðar þessa skýrslu sér að þarna yfirgripsmikið og vandað verk með 99 tillögum.

Ítarleg skýrsla um forsögu og stöðu mála

Guðlaugur Þór sagði að í skýrslunni væri gerð grein fyrir sögu samskipta og stöðu mála. Utanríkisráðherra skipaði nefndina 2019 og fékk Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, til að veita henni formennsku. Aðrir fulltrúar voru Unnur Brá Konráðsdóttir og Óttarr Guðlaugsson. Skýrslan var unnin í samvinnu við Grænlendinga og til stendur að Guðlaugur Þór og Steen Lynge, sem fer með utanríkismál í landsstjórn Grænlands, kynni hana á Hringborði norðurslóða í haust.

Ætla að vinna að rammasamningi og þingsályktun

Guðlaugur Þór segir að hann og Lynge ætli að vinna að rammasamningi milli landanna þar sem lýst væri markmiðum á tilgreindum samstarfssviðum.  

„Ég hef einnig sett í gang vinnu við þingsályktunartillögu sem ég hyggst leggja fram á vorþingi, þar sem lýst er vilja og markmiðum Íslands um aukið samstarf landanna.“

Sóknarhugur meðal Grænlendinga

Össur Skarphéðinsson sagði að sóknarhugur væri í Grænlandi, vaxandi félagsþróttur og mikið að gerast í atvinnulífinu. Mikil framþróun væri í samstarfi þjóðanna í atvinnulífi, flugtengdri þjónustu og sjávarútvegi. Í skýrslunni væri samstarfið kortlagt og tillögur gerðar sem hefðu í för mér sér gagnkvæman pólitískan og efnahagslegan ávinning. Breytingar á Norðruslóðum þýddu að staða Íslands og Grænlands væri gjörbreytt og eðlilegt að vinna saman.