Árlega stendur Reykvíkingum til boða að koma með hugmyndir að verkefnum sem bæta borgina. Þær geta lotið að umhverfi, afþreyingu eða verið list í almannarými. Á miðnætti rann út frestur til að skila inn hugmyndum.
Langvinsælasta hugmyndin er sú að reisa styttu af bandaríska popparanum Kanye West hérna fyrir utan Vesturbæjarlaugina. Hugmyndina á Aron Kristinn Jónasson, sem einnig gengur undir nafninu „Geitin sjálf“.
Óspennandi hugmyndir í kosningu
„Þegar keppni lauk í fyrra sá ég svo rosalega eftir að hafa ekki sett þessa hugmynd inn því mér fannst hugmyndirnar þá vera svo ótrúlega óspennandi,“ segir Aron.
Borginni er skipt upp í tíu hverfi. Í Laugardalnun er vinsælasta hugmyndin að stækka Sólheimasafn. Á Kjalarnesi er vinsælasta hugmyndin sú að nýta þessa strönd betur og koma hérna upp heitum pottum.
Aldrei fleiri hugmyndir
„Í ár slógu Reykvíkingar met. Það var send inn 1321 hugmynd sem er töluverð fjölgun frá því fyrra og árinu áður,“ segir Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg. Hann stýrir verkefninu Hverfið mitt.
Allir geta sett inn hugmynd eða stutt hugmynd og skiptir búseta ekki máli. Hátt í sjö hundruð hafa stutt tillöguna um að reisa styttu af Kanye West.