Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja Kanye West við Westurbæjarlaug

21.01.2021 - 19:27
Mynd: Þór Ægisson/Geir Ólafsson / RÚV
Hátt í sjö hundruð manns vilja að stytta verði reist við Sundlaug Vesturbæjar og er þetta langvinælasta hugmyndin sem sett hefur verið inn á vef Reykjavíkurborgar í hugmyndasamkeppninni Hverfið mitt. Verkefnastjóri hjá borginni segir ekki útilokað að hugmyndin geti orðið að veruleika.

Árlega stendur Reykvíkingum til boða að koma með hugmyndir að verkefnum sem bæta borgina. Þær geta lotið að umhverfi, afþreyingu eða verið list í almannarými. Á miðnætti rann út frestur til að skila inn hugmyndum.

Langvinsælasta hugmyndin er sú að reisa styttu af bandaríska popparanum Kanye West hérna fyrir utan Vesturbæjarlaugina. Hugmyndina á Aron Kristinn Jónasson, sem einnig gengur undir nafninu „Geitin sjálf“.

Óspennandi hugmyndir í kosningu

„Þegar keppni lauk í fyrra sá ég svo rosalega eftir að hafa ekki sett þessa hugmynd inn því mér fannst hugmyndirnar þá vera svo ótrúlega óspennandi,“ segir Aron.

Borginni er skipt upp í tíu hverfi. Í Laugardalnun er vinsælasta hugmyndin að stækka Sólheimasafn. Á Kjalarnesi er vinsælasta hugmyndin sú að nýta þessa strönd betur og koma hérna upp heitum pottum.

Aldrei fleiri hugmyndir

„Í ár slógu Reykvíkingar met. Það var send inn 1321 hugmynd sem er töluverð fjölgun frá því fyrra og árinu áður,“ segir Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg. Hann stýrir verkefninu Hverfið mitt.

Allir geta sett inn hugmynd eða stutt hugmynd og skiptir búseta ekki máli. Hátt í sjö hundruð hafa stutt tillöguna um að reisa styttu af Kanye West.

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV

„Og skora ég bara á borgaryfirvöld að hlusta á unga fólkið og slá til,“ segir Aron.

En er þetta ekki svolítið skrítið að vera með styttu af bandarískum tónlistarmanni í vesturbæ Reykjavíkur?

„Bæði skrítið en það meikar samt líka sens,“ segir Aron.

Hversu líklegt er að sú hugmynd nái fram að ganga?

 

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV

„Það er margt í þessu og núna fer fram úrvinnslu- og samráðsferli þar sem við förum yfir allar hugmyndir sem hafa komið inn og metum hverjar eru tækar,“ segir Eiríkur.

Næsta haust fá svo Reykvíkingar að kjósa um þær hugmyndir sem eru samþykktar. Þær vinsælustu koma til framkvæmda á næsta ári.

„Það væri hægt að gera meiri menningu hérna. Það væri hægt að nýta t.d. Vesturbæjarlaugina og setja styttu af Kanye West hérna fyrir utan þar sem fleiri tugir þúsunda ef ekki hundruð þúsunda ferðamanna gætu komið hérna og heimsótt styttuna. Fyrir Kanye West væri náttúrulega rosalegur heiður að fá styttu reista af sér,“ segir Aron.

Þannig að það er ekkert útilokað að það verði stytta af poppgoðinu við laugina?

„Ég get ekki útilokað það núna en ég get heldur ekki lofað neinu. Það er margt í þessu og við eigum eftir að fara yfir allar hugmyndir,“ segir Eiríkur.

Vesturbær ætti að vera Westurbær

Það er kannski óþarft að taka það fram en Aron er mikill aðdáandi Kanye West. Hann vill taka hugmyndina sína lengra og fara að kalla Vesturbæinn eftir tónlistarmanninum, þannig að hann verði Westurbær. „Og skýra þetta Westurbæjarlaug, Kaffihús Westurbæjar og Knattspyrnufélag Westurbæjar. Og nota „W“ meira hérna í vesturhluta Reykjavíkur.