Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Upplausn í herbúðum QAnon eftir embættistöku Bidens

21.01.2021 - 20:10
epaselect epa08923457 Supporters of US President Donald J. Trump stand by the door to the Senate chambers after they breached the US Capitol security in Washington, DC, USA, 06 January 2021. Protesters stormed the US Capitol where the Electoral College vote certification for President-elect Joe Biden took place.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: Jim Lo Scalzo - EPA
Þeir sem fylgja samsæriskenningunni QAnon trúðu vart sínum eigin augum sínum í gær þegar Joe Biden sór embættiseið sinn í Washington án nokkurra vandkvæða. Ekkert djúpríki var leyst upp, Donald Trump var hvergi sjáanlegur og enginn Demókrati var handtekinn fyrir að vera djöflatrúar eða barnaníðingur.

Fylgismenn QAnon-kenningarinnar voru áberandi þegar æstur múgur réðst inn í þinghúsið í Washington fyrir hálfum mánuði.

Þar fór fremstur í flokki Jake Angeli sem var með horn og bjarnarfeld á höfði, ber að ofan og málaður í framan.  Hann situr nú í gæsluvarðhaldi. 

Á myndskeiði annars QAnon-liða, sem birtist á Facebook á mánudag og fékk 350 þúsund áhorf, lýsti hann því yfir að innsetningarathöfnin yrði eins sú rosalegasta í sögu Bandaríkjanna.  

En ekkert gerðist. Lady Gaga og Jennifer Lopez sungu, Joe Biden sór embættiseið sinn og Trump var hvergi að sjá.

QAnon-liðar trúðu því heitt og innilega að Trump væri frelsari þeirra. Kenningin gekk út á að hann yrði forseti og leysti upp hring barnaníðinga meðal Demókrata og annars frægðarfólks sem væri auk þess djöflatrúar og mannætur. Svona í grófu dráttum. Ekki má gleyma djúpríkinu sem Trump átti að leysa upp.

BBC segir að fylgismennirnir hafi rætt það sín á milli á spjallborðum að 20. janúar yrði dagurinn sem spádómur þeirra rættist.  „Mig langar að æla. Ég er svo þreyttur á misvísandi upplýsingum,“ skrifar einn á vinsælt spjallborð. Aðrir gengu ekki af trúnni og fundu aðra samsæriskenningu. 

„Þetta er búið. Við höfum verið plötuð,“ skrifaði einhver þegar hann horfði á Biden vera settan í forsetaembættið. Fjölmargir tóku í sama streng og fóru að efast um slagorð hreyfingarinnar „Treystu planinu“.  „Gærdagurinn var okkur þungbær,“ sagði áhrifamaður innan hreyfingarinnar sem var með 200 þúsund fylgjendur á Twitter áður en hann var rekinn þaðan.

Eiginkona manns sem hafði sökkt sér ofan í QAnon segir við BBC að embættistaka Joe Biden hafi verið einn mesti vonbrigðadagur í lífi eiginmanns hennar. Vonandi yrði þetta til þess að hann léti af þessari vitleysu þótt hún ætti ekki endilega von á því. Hún óttaðist jafnvel að eitthvað verra kæmi í staðinn.

Á vef CNN kemur fram að margir fylgismenn QAnon hafi beðið eftir því að Trump setti á herlög til að geta orðið aftur forseti. Hann flaug í staðinn til Flórida með fjölskyldu sinni. „Og þar með dó ein lífseigasta og útbreiddasta samsæriskenning síðustu ára,“ segir í umfjöllun sjónvarpsstöðvarinnar. 

Donie O'Sullivan, fréttamaður CNN sem hefur fylgt hreyfingunni eftir, segir gærdaginn hafa verið afar erfiðan fyrir QAnon-liða.  Einhverjum líði eins og þeir hafi verið plataðir en aðrir telji Trump hafa svikið sig. 

AP-fréttastofan vitnar í skrif nokkurra fylgismanna sem segjast vera hræddir og telji að ekkert muni gerast.  Sannir samsæriskenningasmiðir hafi hins vegar strax séð sér  leik á borði og kokkað upp nýjar kenningar um að Trump væri„skuggaforseti“ Bidens.

Eða að innsetningarathöfnin hafi verið tölvugerð og að Biden væri sjálfur Q, hinn háttsetti embættismaður sem býr yfir upplýsingum um níðingsverk Demókrata.