Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þúsundir fermetra á floti í byggingum HÍ

kalt vatn flæddi inn í byggingar Háskóla Íslands austan Suðurgötu aðfaranótt 21. janúar 2021, þegar vatnsæð fór í sundur. Mest fór í kjallarann undir Hámu/Stúdentakjallarann, og Lögberg.
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Stór kaldavatnslögn í Vesturbæ Reykjavíkur gaf sig í nótt með þeim afleiðingum að feikimikið vatn fossaði inn í kjallara nokkurra bygginga Háskóla Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu fóru þúsundir fermetra í Aðalbyggingu háskólans, Lögbergi, Gimli, Árnagarði, Háskólatorgi og Stúdentakjallaranum og fleiri byggingum austan Suðurgötu undir vatn áður en menn náðu að loka fyrir rennsli um lögnina. Einnig mun eitthvað af vatni hafa streymt inn í Nýja Garð.

Mannskapur og dælubílar frá þremur slökkvistöðvum voru sendir á vettvang og er búist við að dælustörf standi framá morgun. Samkvæmt upplýsingum frá Veitum gekk greiðlega að beina köldu vatni vestur í bæ eftir öðrum leiðslum, svo að enginn skortur er þar á köldu vatni. Ekki er vitað hvað varð til þess að leiðslan, ein af meginæðum vatnsveitunnar vestur í bæ, fór í sundur. 

Flóð í Háskóla Íslands eftir að vatnsæð gaf sig aðfaranótt 21.01. 2021
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Mikið vatn flæddi inn í Stúdentakjallarann. Eins og sjá má nær það stólunum upp í miðja fætur, og ofarlega til hægri er svokölluð Gryfja, sem er fleytifull af vatni.
Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV