Þótti nóg komið þegar hún óttaðist um öryggi dætranna

Mynd: Anton Brink / Ruv.is

Þótti nóg komið þegar hún óttaðist um öryggi dætranna

21.01.2021 - 09:24

Höfundar

„Ég gat ekki sagt neitt opinberlega þegar ég hætti, ég var svo leið og miður mín,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir sem sagði af sér ráðherraembætti eftir lekamálið svokallaða og sagði skilið við stjórnmálin tveimur árum síðar fyrir fullt og allt. Hanna hefur aldrei litið um öxl en er þakklát fyrir stuðning og traust sem hún fann fyrir. Í dag býr hún í New York og starfar fyrir UN Women sem er algjör draumur að rætast, að eigin sögn.

Hanna Birna starfar sem sér­stakur ráð­gjafi á aðal­skrif­stofu UN Women í New York og leiðir einnig undirbúning að Heimsþingi kvenleiðtoga. Hanna Birna kíkti í Segðu mér til Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1 og fór yfir stjórnmálaferilinn, það sem hún naut mest og það sem var erfitt. Hanna Birna býr í New York og starfar við jafnréttismál sem er það sem hún hefur mesta ástríðu fyrir.

Fannst Sjálfstæðisflokkurinn þurfa að hysja upp um sig í jafnréttismálum

Hanna Birna kom fyrst inn í starf Sjálfstæðisflokksins þegar hún var í kringum þrítugt. Hún var í hópi sem nefndi sig Sjálfstæðar konur og samanstóð af ungum konum sem skilgreindu sig hægra megin í stjórnmálum. „Mér fannst Sjálfstæðisflokkurinn aðeins þurfa að hysja upp um sig brækurnar þegar kom að jafnréttismálum,“ rifjar hún upp.

Hún var virk í stjórnmálum næstu tvo áratugina og var gjarnan kölluð Valhallar-Hanna. Í störfum sínum fyrir flokkinn gegndi hún meðal annars hlutverki framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðismanna, var aðstoðarframkvæmdari, borgarstjóri og ráðherra. 

„Ég bara kvaddi og fór“

Eftir að hafa sagt skilið við íslenska pólitík árið 2016 hefur hún ekki mætt á einn einasta fund í Valhöll þó hún minnist tímans að miklu leyti með hlýju. „Ég var búin að ákveða að þegar ég væri hætt yrði ég ekki ein af þeim sem væri áfram í aftursætinu að skipta mér að og segja: Hlutirnir voru öðruvísi þegar ég var, eða að reyna að hafa áhrif annars staðar frá,“ segir hún. „Auðvitað þykir mér vænt um allt þetta fólk en ég bara kvaddi og fór og hef ekki skipt mér að stjórnmálum síðan.“

„Hvernig í ósköpunum gat ég lent hérna?“

Hanna Birna var kjörin borgarstjóri 21. ágúst 2008 og tók við embættinu af Ólafi Friðriki Magnússyni. Hún lét af embætti að loknum kosningunum 2010 þegar Besti flokkurinn og Samfylkingin mynduðu meirihluta og Jón Gnarr varð borgarstjóri. Í borgarstjórastóli undi hún sér sérstaklega vel. „Ég man að stundum þar sem ég sat á skrifstofunni í Ráðhúsinu og horfði út á tjörnina hugsaði ég: Hvernig í ósköpunum gat ég lent hérna? Þvílík dásemd,“ segir hún. „Ég hef ofboðslega gaman að hugmyndinni um fegurð og hið mannlega umhverfi. Ég var lengi í skipulagsmálum og mér fannst þetta eins og að hafa lent í ævintýri.“

Varaformannsembættið hentaði ekki

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2013 var hún kosin varaformaður flokksins, sem er embætti sem eftir á að hyggja henni fannst ekki henta sér. „Þetta er sagt með mikilli virðingu fyrir landsfundi Sjálfstæðisflokksins og öllu þessu, en þegar ég var varaformaður flokksins þá gerðist eitthvað í maganum á mér. Ég vissi að það myndi ekki henta mér og ég var löngu búin að segja að ég ætlaði ekki að taka að mér að verða varaformaður,“ segir hún.

Óánægjan í embætti tengdist þó ekki fólkinu sem hún vann með heldur fremur stöðunni og því formlega valdi sem henni fylgir. „Ég þurfti meira frelsi. Að vera laustengdari forystunni og að fá að gera hluti sem mig langaði að gera,“ segir hún. „Þegar ég var komin í þessa stöðu fannst mér ég missa stjórn á því sem mig langaði að gera.“ Hún segir að ein stærstu mistök sem hægt sé að gera í stjórnmálum séu að hætta að hlusta á hjartað.

Eftir að hún hætti í stjórnmálum hefur hún einsett sér að hlýða betur á og fylgja hjartanu og innsæinu. „Ég ákvað að hlusta meira á hjartað, meira á magann, á hvað kroppurinn segir og ég sjálf segi,“ segir hún. „Ég sé ekki eftir því að hafa tekið þátt í stjórnmálum og ég elti ekki ólar við að velta því fyrir mér en ég veit alveg hvenær ég fór út af sporinu.“

Varð raunverulega hrædd og kenndi börnunum á öryggiskerfið

Hún sagði af sér sem inn­an­rík­is­ráð­herra í lok árs 2014 í kjöl­far leka­máls­ins, þar sem aðstoð­ar­maður henn­ar var dæmdur fyrir að leka trúnaðarupplýsingum úr ráðu­neyt­inu. Þessa tíma á Hanna Birna enn erfitt með að rifja upp. „Það gerðust auðvitað hlutir á minni vakt sem mér fannst ég eiga að taka ábyrgð á og ég tók ábyrgð á, en margt í því særir mikið og margt eru sögur,“ segir hún. „En ég veit í hjartanu hvað ég lagði mikið á mig, hvað ég reyndi að gera hlutina rétt. Ég veit líka alveg að í öllu þessu umhverfi og þegar þú ákveður að taka þátt í stjórnmálum eins og ég gerði þá verða þér á mistök eins og öllum öðrum.“

Á þessum tíma sætti hún mikilli gagnrýni og jafnvel hótunum og var hún á tímabili farin að óttast öryggi sitt og barna sinna. Henni varð þá ekki um sel. „Bara það að taka samtal við börnin sín um að við séum ekki örugg, að kenna þeim á öryggiskerfi og vera með öryggisvakt í nokkra mánuði, raunverulega hræddur um sig og sína,“ segir hún.

„Ég gat ekki sagt neitt opinberlega“

Hjónin settust niður og komust að þeirri niðurstöðu að nú væri þetta komið gott. „Mín skuldbinding gagnvart kjósendum, málstað Sjálfstæðisflokksins eða gagnvart því að sitja í ríkisstjórn getur ekki gert það að verkum að þú þarft að setjast á móti börnunum þínum og útskýra fyrir þeim hvar rauði hnappurinn er.“ Hanna Birna sagði af sér ráðherraembætti en hélt áfram að starfa á þingi út kjörtímabilið en tilkynnti í lok þess að hún myndi ekki gefa kost á sér aftur.

Hún tilkynnti ákvörðun sína um að snúa ekki aftur í stjórnmál ekki opinberlega til að byrja með. „Ég gat ekki sagt neitt opinberlega þegar ég hætti, ég var svo leið og miður mín,“ segir hún. Einhverja gagnrýni heyrði hún fyrir þá ákvörðun að halda ekki blaðamannafund til að ræða ákvörðunina en hún fann á þeim tíma að hún treysti sér ekki til þess. „Ég hefði bara farið að hágráta ég var öll eitthvað svo mölbrotin.“

Lagði áherslu á að vera samviskusöm fyrirmynd

Fjölskylda Hönnu Birnu er mjög samheldin og ástrík en hún er alin upp á þeim tíma sem mikil krafa varð gerð til stúlkna að vera samviskusamar og til fyrirmyndar. Þegar hún kom heim með einkunnabókina úr grunnskóla kom alltaf fram að hún væri hlýðin, til fyrirmyndar og ekki að trufla í tíma. Það er rótgróið í hana að leggja sig alltaf sérstaklega vel fram við að standa sig en í dag minnir hún dætur sínar líka á að vera stundum pönkarar og hrista upp í kerfinu. „Ég hvet stelpurnar, þær reyndar segja að ég haldi þeim of mikið við efnið, ekki í að vera óþekkar heldur að láta heyra í sér og láta muna um sig.“

Þegar hún hóf afskipti af pólitík fann hún að þessi krafa sem hún gerði til sjálfrar sín varð henni stundum fjötur. „Ég er fyrst og fremst hard core femínisti og vil standa upp og segja: Þetta kerfi er glatað,“ segir hún. „Þá var að trufla mig að ég gerði það þannig að ég skyldi enn vera til fyrirmyndar þegar ég vildi róta miklu meira.“

Draumur að vinna í jafnréttismálum á alþjóðlegum vettvangi

Þegar hún kynntist eiginmanni sínum, Vilhjálmi Jens Árnasyni, heimspekingi, vissi hún að eigin sögn strax að hann væri maðurinn fyrir sig. Hann sé yndislegur félagi sem styðji hana og þau ferðast samstíga í gegnum lífið. Nú upp á síðkastið hafa þau varið miklum tíma saman í New York þar sem Hanna Birna starfar fyrir Sameinuðu þjóðirnar sem ráðgjafi UN Women og viðurkennir að það sé að mörgu leyti eins og draumur að rætast.

Varð aftur 25 ára á strigaskónum í New York

„Fyrir mig að vinna í jafnréttismálum á alþjóðlegum vettvangi er bara meira en draumur. Það er allt sem mig langar að gera og allt sem ég trúi að ég geti haft góð áhrif á.“ Hún unir sér afar vel í borginni og líður sem hún yngist þegar hún kemur þangað. „Þegar ég flutti til New York var ég 52 ára en ég varð 25 ára á einum sólarhring. Þegar ég byrjaði að hlaupa í lestirnar, var orðin hluti af þessu krádi og þessu flóði af fólki. Og bara á strigaskónnum,“ segir hún. „Það er einhver andi þarna, ég verð ekki stressuð. Þegar ég er orðin hluti af þessum nið finnst mér ég ógeðslega smart. Töff og ung og alveg með þetta.“

Horfir ekki í baksýnisspegilinn

Hún eyðir ekki of miklum tíma í að horfa í baksýnisspegilinn en hún er þakklát fyrir það sem hún hefur gert, tækifærin sem hún hefur fengið og er fyrir löngu búin að ákveða að lífið sé það sem er fram undan. Hún segir einnig ótrúlegt lán að fá að vinna við það sem einnig er áhugamálið hennar. „Ég vinn að því að bæta heiminn fyrir stelpur og konur um allan heim og mér finnst það skipta máli,“ segir hún. „Mér finnst ekkert mikilvægara en að gera hlutina sem ég er að gera og mér finnst skipta máli fyrir jafnrétti í heiminum. Það eru mínar skíðaferðir, útivist, bridds eða hvað það er.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í Segðu mér á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á viðtalið í heild sinni.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég kalla þetta stundum ástarbréf mitt til Íslands"

Bókmenntir

Sárt að kveðja föður sinn á líknardeild

Stjórnmál

Hanna Birna verður ráðgjafi hjá UN Women