Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Telja heilsuspillandi að sleppa hádegismat og slökun

21.01.2021 - 14:03
Mynd með færslu
 Mynd: pixabay
Hætta er á að þau sem vinna af sér hádegismatinn í vinnunni og láta hjá líða að taka sér hlé geti orðið berskjölduð fyrir andlegri og líkamlegri þreytu og kvillum. Þetta sýna nýjar rannsóknir sem sálfræðiprófessorarnir Leif Rydstedt og David Andersen við háskólann í Innlands-fylki í Noregi unnu í samvinnu við Mark Cropley við háskólann í Surrey.

Norska ríkisútvarpið greinir frá þessu og að Rydstedt segi dugnað af þessu tagi hreinlega geta verið hættulegan. Að hans mati liggur mikill ávinningur í því að geta slakað á meðan á vinnudegi stendur.

Eitt af því sem kom rannsakendum verulega á óvart er að hlé meðan á vinnudeginum stendur hafi meiri áhrif á líðan fólks en það að aftengja sig vinnunni algerlega á frítíma.

Niðurstöður sýna að þau sem slaka aldrei á yfir vinnudaginn, geti verið sjö sinnum líklegri til að glíma við andlega og líkamlega kvilla en þau sem standa aðeins upp, teygja úr sér, hugsa um eitthvað allt annað en vinnuna og ná sér jafnvel í svolítið súrefni.

Á vef norska ríkisútvarpsins er rætt við tvo stúdenta við háskólann, Kristian Westbye Sævik og Camillu Hagen Kristiansen. Hún segist sjaldan taka sér andrými frá náminu.

Hún kveðst eiga það til að sökkva sér svo djúpt í lestur að hún gleymi hvað tímanum líður. Það verði til þess að hún vinni af sér alla matmálstíma og taki sér sjaldan hlé. „Eftir á sé ég hvað þetta er kjánalegt,“ segir hún.

Sævik segist aldrei lesa lengur en fimmtíu mínútur í senn, hann kveðst huga vel að hvíld á milli þótt í mörg horn sé að líta. „Hlé og smá spjall gerir hugsunina miklu skýrari,“ segir hann.

Rannsókn Leifs Rydstedt tók ekki til þeirra áhrifa sem aukin heimavinna fólks á tímum kórónuveirufaraldurs geti haft á heilsu og líðan en hann kveður það mjög áhugavert rannsóknarefni.

Hann segist telja að það geti jafnvel verið erfiðara að slíta sig frá vinnustöðinni heima fyrir. Því vilji hann gjarna kanna þau áhrif sem heimavinna hefur á fólk og hvernig vinnumarkaðurinn eigi eftir að þróast.

Ráð Rydsteds er þó einfalt: „Standið upp frá vinnunni örlitla stund, yfirgefið tölvuna og borðið hádegismatinn í rólegheitunum.“