Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Segja stjórnarskrártilraun Katrínar hafa mistekist

21.01.2021 - 13:45
Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er sannfærð um að með efnislegri umræðu muni löngu tímabærar breytingar á stjórnarskránni þokast áfram. Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir tilraun til að ná sáttum um breytingarnar hafa mistekist og þingmaður Pírata segir allt ferlið hafa mistekist.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í umræðu á Alþingi nú rétt fyrir fréttir að tilraunastarfsemi um breytingar á stjórnarskránni væri ekki af hinu góða.

Umræðu um stöðu stjórnarskrármála lauk um klukkan tólf á Alþingi. Hún snerist fyrst og fremst um það ferli sem vinna við breytingar á stjórnarskrá hefur verið í en ekki um efnislega þætti eða það frumvarp sem forsætisráðherra hefur boðað.

Formenn flokkanna hafa fundað 25 sinnum á kjörtímabilinu um þessi mál og þar ríkir lítil sem engin sátt. Á Alþingi mætast mörg ólík sjónarmið; þar eru þeir sem vilja nánast engar breytingar gera og telja þetta ekki stóra málið og svo þeir sem vilja nýja stjórnarskrá stjórnlagaráðs.

„Ég hef þá trú að það að fá að taka þessi mál til efnislegrar umræðu á þinginu muni verða til þess að við þokumst fram á við,“ sagði Katrín Jakobsdóttir á Alþingi í dag. „Það er mín sannfæring að þessi leið sé eina leiðin fram á við til að gera löngu tímabærar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins.“

Birgir Ármannsson vill fara varlega. Hann var málshefjandi þessarar umræðu um stjórnarskrárbreytingarnar. „Við stjórnarskrárbreytingar þá þarf auðvitað að fara af meiri varfærni heldur en við aðrar lagabreytingar og tilraunastarfsemi og einhver ævintýramennska í þeim efnum er auðvitað ekki af hinu góða,“ sagði hann á Alþingi.

Logi Már Einarsson telur tilraun forsætisráðherra hafa mistekist. „Hvað sem öðru líður þá má að minnsta kosti fullyrða að tilraun hæstvirts forsætisráðherra til að ná breiðri sátt um þessi mál á lokuðum fundum formanna hún hefur mistekist.“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, var á sama máli og Logi. „Ég vil koma því sjónarmiði til skila ég tel ferlið sem farið var í núna hafa mistekist algerlega þetta er mjög svipað ferli og var farið í á þar síðasta kjörtímabili sem að mistókst líka.“

Þingfundur heldur hér áfram og síðar í dag mun umhverfisráðherra mæla fyrir þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.