Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir ekki ganga að fólk sé innikróað dögum saman

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Óðinn Svan Óðinsson
Bæjarstjórinn í Fjallabyggð segir það ekki ganga í nútímasamfélagi að íbúar í 2.000 manna sveitarfélagi séu innikróaðir dögum saman. Siglfirðingur, sem þurfti að rýma hús sitt, segir það hafa komið á óvart því öflugur varnargarður sé rétt ofan við götuna. 

Það er enn hættustig vegna snjóflóða á Siglufirði og rýming sem boðuð var í gær er enn í gildi. Harpa Grímsdóttir, forstöðumaður snjóflóðaseturs Veðurstofunnar, segir að staðan verði metin í dag og áætlað sé að gefa út nýtt hættumat klukkan fjögur.

Ítrekað lokað bæði um Ólafsfjarðarmúla og Almenninga

Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla var opnaður í morgun, en þar hefur hefur verið lokað frá því á mánudagskvöld. Þar er samt óvissustig vegna snjóflóðahættu. Siglufjarðarvegur um Almenninga er enn lokaður. Síðasta vetur lokaðist vegurinn um Ólafsfjarðarmúla 24 sinnum í samtals 320 klukkustundir. Siglufjarðarvegur lokaðist 52 sinnum í samtals 866 klukkustundir. Þá hafa þessar leiðir einnig lokast núna í vetur.

Óboðlegar samgöngur í nútímasamfélagi

Elías Pétursson, bæjarstjóri í Fjallabyggð, segir þetta mjög óþægilegt, enda útheimti bæði atvinnulíf og annað að það séu tryggar samgöngur. „Það er ekki svo að það væsi um fólk. Hér er matur í búðum og annað og því er reddað ef það breytist. En það hljóta allir að gera sé það ljóst að vera lokaður inni í raun án bjarga sem þarf ef eitthvað kemur upp á, það er óþægilegt. Og mitt mat að í nútímasamfélagi þá bara einfaldlega gangi það ekki.“ 

Lausnin felist í nýjum jarðgöngum    

Og lausnin sé til og felist í nýjum jarðgöngum. „Það sem er til ráða er einfaldlega að fara í jarðgangagerð hér yfir í Fljótin. Og síðan Ólafsfjarðarmegin annað hvort að tvöfalda Múlagöngin og byggja svo vegskála þar sem snjóflóðahættusvæðið er. Eða, sem er skynsamlegra og ódýrara, að fara í göng frá Ólafsfirði beint yfir á Dalvík.

Lokanirnar taki meira á en snjóflóðahættan

Fjölskyldur í níu íbúðarhúsum á Siglufirði gátu ekki verði í húsum sínum í nótt, en þau voru rýmd í gær. Sandra Finnsdóttir býr í Norðurtúni 7. „Það var vissulega skrýtið, í ljósi þess að það eru garðar þarna fyrir ofan okkur. En þetta er í fyrsta skipti sem við höfum þurft að fara. Ég hef nú kannski ekkert heyrt beint í nágrönnunum en ég ímynda mér, þar sem þetta er rólyndisfólk, þá taki það þessu með stóískri ró. En ég held að þær séu meira farnar að taka á þessar lokanir, svona á fólkið. Að það sé lokað beggja vegna við okkur. Ég held að það sé farið að taka aðeins meira á fólk heldur en hitt.“ 

Varðskipið Týr komið inn á Eyjafjörð

Varðskipið Týr er nú komið inn á Eyjafjörð og leggst fljótlega að bryggju á Dalvík. Elías segir skipið sent inn á Dalvík svo það geti verið tilbúið þar. „Ef það þarf að koma einhverjum björgum hingað til okkar, ef eitthvað kemur upp á. Þetta er algert neyðarbrauð náttúrulega. En þetta er það sem þarf að gera.“