Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Niðurstaða úr loðnumælingum í dag eða á morgun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nú er unnið úr gögnum úr þriggja daga leiðangri við loðnumælingar austur af landinu. Forstjóri Hafrannsóknastofnunar segir brýnt að komast sem fyrst aftur til loðnurannsókna.

Þrjú veiðiskip, sem fóru til loðnumælinga undan Austfjörðum á sunnudag, komu til hafnar í gær. Skipin fóru um allstórt svæði frá Suðausturlandi norður undir Langanes. Mæld var loðna sem togarar fundu við landgrunnið austur af landinu og talið er að þetta geti verið viðbót við loðnu sem mældist í rannsóknaleiðangri fyrir norðan land fyrr í mánuðinum.

Niðurstöður eigi að liggja fyrir á morgun 

Starfsfólk Hafrannsóknastofnunar vinnur nú úr gögnum sem safnað var í leiðangrinum fyrir austan og Sigurður Guðjónsson, forstjóri, segist hafa vonað að niðurstaða fengist í dag. „Mér sýnist samt að það dragist til morguns að fá niðurstöðu og hvað hún muni þá þýða. Það mældist alveg þokkalegt magn af loðnu, en það er einmitt það sem verið er að reikna.“

Gátu ekki mælt norðan við Langanes vegna brælu

Hann segir að ágætlega hafi náðst utan um loðnuna fyrir austan og mælingin hafi gengið vel. „Við hefðum viljað komst norðar og norður fyrir Langanesið til að athuga hvort þar er ekki enn þá loðna. En það tókst ekki vegna brælu. Við erum í startholunum að fara norður en það lítur illa út. Það er vond spá fram í miðja næstu viku.“

Allt tilbúið í næstu mælingar um leið og gefur

Sigurður segir að til standi að mæla loðnu sem fyrst aftur, úti fyrir öllu Norðurlandi og vestur á Grænlandssund. Hafís tafði mælingar þar í leiðangri fimm skipa fyrr í mánuðinum. Góðu fréttirnar nú segir hann að norðan- og norðaustanáttir hreki ísinn frá landinu og því ættu mælingar að ganga betur. Búið sé að semja við útgerðir veiðiskipa um að taka þátt í leiðangrinum. „Við erum klár að mæla um leið og gefur. Með skip bæði að austan og vestan.“