Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Mexíkóar fagna tilskipun Bidens um landamæramúrinn

Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórnvöld í Mexíkó fagna tilskipunum Joes Bidens, forseta Bandaríkjanna, um umbætur í innflytjendamálum og að hætta skuli öllum framkvæmdum við að reisa múr á landamærum ríkjanna.

Búið að reisa eða endurbyggja 727 kílómetra af landamæramannvirkjum

Landamæramúrinn var eitt helsta kosningamál Donalds Trumps fyrir kosningarnar 2016. Bygging hans mætti talsverðum mótbyr á Bandaríkjaþingi og því gekk hægar að fjármagna hann og byggja en að var stefnt. Þegar Trump lét af embætti þriðjudaginn 20. janúar var búið að reisa samtals 727 kílómetra af múr á nokkrum stöðum á landamærunum, sem eru 3.145 kílómetra löng.

Mikill meirihluti þessara mannvirkja, eða um 650 kílómetrar, kom í stað eldri og úr sér genginna girðinga og/eða múra sem fyrir voru.

Með fyrstu embættisverkum Bidens

Biden lét það verða eitt af sínum fyrstu verkum eftir að hann tók við forsetaembættinu í gær, að stöðva frekari vinnu við landamæramúrinn. Einnig mælti hann fyrir um að ekki skyldi hrófla við regluverki um réttindi ungs fólks sem kom ólöglega til Bandaríkjanna á barns aldri, svokallaðri DACA-löggjöf, sem Trump reyndi að ógilda, og fleiri umbætur á innflytjendalöggjöfinni.

„Mexíkó fagnar stöðvun byggingar landamæramúrsins, breytingum á regluverki um innflytjendur, ungum innflytjendum í hag, og opnun á möguleikanum á tvöföldum ríkisborgararétti," skrifar Marcelo Ebrard, utanríkisráðherra Mexíkós á Twitter.