Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Með staf og hatt að æfa leikrit við eldhúsborðið

Mynd: Andri Freyr / RÚV

Með staf og hatt að æfa leikrit við eldhúsborðið

21.01.2021 - 16:52

Höfundar

Leikritið Vertu úlfur heltók hjónalíf Unnar Aspar Stefánsdóttur og Björns Thors þegar æfingar á verkinu stóðu sem hæst. Unnur Ösp leikstýrir Birni í verkinu sem hún skrifaði eftir samnefndri bók Héðins Unnsteinssonar.

Unnur Ösp er nánast orðin eins og persónan í verkinu og tímir því varla að fara sofa því hún hlakkar svo til að vakna á morgnana. Leikritið á sér nokkuð langan aðdraganda og röð tilviljana gerir það að verkum að það sé nú frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins. Unnur Ösp las bókina, sem kom út fyrir sex árum, og fékk strax hugmynd að því að skrifa verkið upp fyrir svið. 

Þegar samkomubannið tók gildi og ekki var hægt að æfa fjölmennari leikrit lá því beinast við að æfa einleikinn. Sérstaklega þar sem leikstjórinn og leikarinn, í þessu tilviki hjónin Unnur Ösp og Björn Thors, gátu æft leikritið heima hjá sér. „Þetta raðast þannig upp að það var praktískt að við gátum bara æft einleik, bara leikstjóri, örfáir listrænir stjórnendur og einn leikari. Allir í fjarlægð og ég og Bjössi í sömu jólakúlu, deilum sama rúmi heima og svona,” segir Unnur Ösp í viðtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2.

Leikritið á einnig meira erindi við okkur núna en fyrir ári, að mati Unnar Aspar. „Erum búin að ganga í gegnum stórbrotna tíma, það er eiginlega ekki hægt að segja neitt annað. Erum öll pínu viðkvæm og slegin. Ég held að það sé rosalega þakklátt að koma inn í myrkrið hérna og verða vitni að tilfinningaríkri sögu sem ætti að snerta við okkur öllum. Þetta er magnað efni sem við þurfum að tala um og ekki síst núna. Á endanum verður þetta lán í óláni að við séum að frumsýna þetta núna,” segir hún.

Þegar Unnur Ösp og Björn byrjuðu að æfa verkið mátti ekki koma saman í 10 manna æfingarhólfi Þjóðleikhússins. Þau nýttu því eldhúsið heima hjá sér til æfinga. „Ég á ljósmyndir af því, þar sem við erum tvö yfir eldhúsborðinu, hann með staf og hatt. Algjörlega absúrd kringumstæður ég veit ekki hvað fólk hefði sagt ef það hefði séð til okkar. Þá bókstaflega vorum við bara tvö heima. Svo fengum við að koma í leikhúsið,” segir hún.

Hún viðurkennir að oft hafi verið erfitt að hafa einhvers konar skilrúm á milli vinnunnar og einkalífsins enda voru þau bæði heltekin af þessu efni. „Ég er að gefa honum nótur allan sólarhringinn undir það síðasta,” segir Unnur Ösp.  

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að ofan og þar má einnig heyra titilllag leikrtisins sem Emilíana Torrini flytur.