Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Leiðindafærð á vegum og sums staðar ófært eða lokað

21.01.2021 - 11:35
Innlent · færð · veður · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Leiðindafærð er á öllum helstu þjóðvegum landsins í dag. Vegagerðin tilkynnir á vef sínum í að vetrarfærð sé á flestum vegum í öllum landshlutum. Á Norður- og Austurlandi er víða skafrenningur eða éljagangur. Vegirnir um Þverárfjall og Þröskulda eru lokaðir og verða ekki opnaðir í dag. Bent er á Innstrandaveg (68) sem hjáleið í stað Þröskulda. Á Vestfjörðum er víðast hvar hálka eða snjóþekja og éljagangur og skafrenningur á flestum leiðum. Klettsháls er ófær vegna veðurs.

Við Heiðarsporð á Holtavörðuheiði verður umferðarhraði lækkaður niður í 50 kílómetra á klukkustund og gæti komið til stuttra lokana næstu vikur, vegna vinnu á svæðinu. 

Umtalsverðar slitlagsskemmdir eru á Bíldudalsvegi, á Mikladal og í Tálknafirði. Skemmdirnar eru mestar á Mikladal á um 4 til 5 kílómetra kafla og eru vegfarendur beðnir um að aka varlega þar sem aðstæður gætu verið varasamar á köflum. Hálka eða snjóþekja er á vegum á Vesturlandi og skafrenningur víða. Sömu sögu er að segja á Vestfjörðum.

Búið að opna Múlann

Sé litið til Norðurlands er þæfingsfærð á milli Sauðárkróks og Hofsós. Lokað er á Þverárfjalli og Víkurskarði og verður ekki opnað í dag. Verið er að vinna í opnun á Siglufjarðarvegi og er líklegt að hann opni um hádegisbil. Hættustigi hefur verið aflýst í Ólafsfjarðarmúla og vegurinn opnaður. Óvissustig er þó enn í gildi. Ófært er á Hólasandi. Þæfingur og skafrenningur er á Möðrudalsöræfum, Hófaskarði og Hálsum og veður fer versnandi. Víðast hvar hálka eða snjóþekja á vegum, skafrenningur og éljagangur. 

Á Austurlandi er víðast hvar hálka eða snjóþekja, skafrenningur og éljagangur. Lokað yfir Öxi og Breiðdalsheiði en þar er engin vetrarþjónusta.

Framkvæmdir tefja umferð

Unnið er að breikkun Hringvegar (1) milli Selfoss og Hveragerðis. Hraði á framkvæmdasvæðinu er tekinn niður í 70 km/klst og eru vegfarendur beðnir um að gæta varúðar. Sömuleiðis er unnið að breikkun Hringvegar (1) á Kjalarnesi milli Varmhóla og Vallár. Hraði á framkvæmdasvæðinu er tekinn niður í 70 km/klst og eru vegfarendur beðnir um að gæta varúðar. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV