Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Huldulistamaðurinn CozYboy er Sigurjón Sighvatsson

Mynd: RÚV / RÚV

Huldulistamaðurinn CozYboy er Sigurjón Sighvatsson

21.01.2021 - 14:22

Höfundar

Óræðin, oft kómísk skilaboð hafa birst borgarbúum á ljósaskiltum og strætóskýlum síðustu vikur. Lengi vel var ekki vitað hver var listamaðurinn að baki þessum verkum en það er komið í ljós.

Listamaðurinn starfaði undir dulnefninu CozYboy en undir lok sýningarinnar var hið sanna dregið fram í dagsljósið. CozYboy er enginn annar en kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson. Nýr tónn er sleginn með sýningunni því hann hefur hingað til einbeitt sér að kvikmyndamiðlinum, en hefur þó komið víða við.

„Það sem er frábært við kvikmyndina er að hún sameinar alla þessa hluti; málverkið eða ljósmyndina, hljóðið, leikinn og búningana og hönnunina. Ég held að allir miðlarnir séu að renna miklu meira saman hvort eð er,“ segir Sigurjón. „Ég ætla ekki að skipta um vettvang en aftur á móti fannst mér þetta gefa mér tækifæri til að stíga inn á þennan vettvang, eigum við að segja í gegnum bakdyrnar.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Becoming Richard birtist fólki á 287 risaskjám vítt og breitt um borgina

Sýningin ber titilinn Becoming Richard og birtist fólki á 287 risaskjám vítt og breitt um borgina, þar með talið strætóskýlum, flettispjöldum og stórum LED skiltum við fjölfarin gatnamót. „Ég hef verið mjög hrifinn af auglýsingaskiltinu sem slíku í okkar nútímakúltúr. Það hefur auðvitað verið notað áður en aldrei á þennan hátt. Þessi nýja LED-ljósatækni gerir það svo aðgengilegt, og ég vildi að sem flestir sæju það á sem flestum stöðum. Þetta er kosturinn við Ísland,“ segir Sigurjón. „Mér fannst verkið kalla á öðruvísi skírskotun því allur bakgrunnur þess og hugmyndafræðin kemur úr, eigum við að segja, ekki endilega auglýsingaheiminum heldur hinum víðari grafíska heimi.“

En hvaðan kom dulnefnið CozYboy? „CozYboy er slanguryrði og er á vissan hátt tilvísun í mig. Einhver sem vill hafa það gott en vill í rauninni ekki búa til of mikla óánægju hjá öðrum. Ég vil að öllum líði ágætlega. Ég er ekki maðurinn sem væri fremst í víglínunni fyrir framan Alþingishúsið með skilti. Þess vegna er þessi tvíbenta meining í orðinu.“

Textar verkanna eru sumir hverjir torskildir og vísa jafnt í samtímamenningu og forna heimspeki. „Textarnir koma, ekki allir en flestir, frá listamanninum Richard Prince. Stundum setti hann þá fram undir dulnefni en svo eru líka textar frá honum sem hann hefur tekið annars staðar. Svo inn á milli eru mínir textar,“ segir hann. „Í sumum textanna er ákveðin meining, þeir koma kannski úr indverskri heimspeki. En hugmyndin að hafa verkin svo mörg er að kalla fram öðruvísi viðbrögð en við tíu verkum. Verkin eru það mörg og sýnd það hratt að í rauninni verðurðu að gefa þeim nánari gaum til að geta tekið og náð utan um heildarmeiningu.“

Aðspurður segir Sigurjón sýninguna eiga eftir að ferðast víðar. „Það verður örugglega framhald og ég held að ég geti með sanni sagt að þetta verði sýnt í fleiri löndum. Það er líka kostur við miðilinn, hann er aðgengilegur og tiltölulega ódýr. Ég þarf bara að senda tölvufæl til viðkomandi sem getur komið því í gagnið.“

Rætt var við Sigurjón Sighvatsson í Menningunni á RÚV.

Tengdar fréttir

Myndlist

Mannslíkaminn er eitt allsherjar myrkraherbergi

Myndlist

Píkurósir á dekkjaverkstæðinu

Leiklist

Tyrfingur mælir með að stofna leikfélag í faraldrinum