Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Grét á leiksýningu um sjálfan sig

Mynd: gh / RÚV

Grét á leiksýningu um sjálfan sig

21.01.2021 - 11:41

Höfundar

Vertu úlfur í leikstjórn Unnar Aspar Stefánsdóttur verður frumsýnd á stóra sviði Þjóðleikhússins á föstudag. Björn Thors, eiginmaður Unnar, fer með eina hlutverk sýningarinnar sem byggist á samnefndri bók Héðins Unnsteinssonar. Bókin segir frá reynslu hans af falli og upprisu manns sem greindist með geðhvörf.

„Ég sá rennsli í síðustu viku og það var mjög sérstakt. Ég átti erfitt með að horfa fyrstu tíu mínúturnar en svo var það allt í lagi,“ segir Héðinn. Hann kíkti í Mannlega þáttinn á Rás 1 og sagði frá þeirri undarlegu reynslu að fylgjast með atburðum úr eigin lífi á stóra sviðinu.

Að skrifa bókina var nokkurs konar hreinsun fyrir Héðinn sem skrifaði sig frá erfiðri reynslu sem hann gekk í gegnum fyrir rúmum áratug. „Fyrir mér var þetta bara uppgjör og líka það að reyna að útskýra hvað gengur á í höfði manns sem missir stjórnina og verður veikur,“ segir hann.

Sá mynstur allt í kringum sig

Þá lýsir hann í bókinni ákveðnu hugsanaferli og hegðunarmynstri sem verður stjórnlaust en á sama tíma lógískt. Til dæmis þegar hann sá númer í nærumhverfi sínu eins og bílnúmerið BA666 þá fannst honum það geta staðið fyrir níunda flug British Airlines þann morguninn. „Því sex plús sex eru tólf, einn plús tveir er þrír og þrír plús sex er níu, skiljiði? Það er lógík í öllum hugsanaferlum.“

Fannst Coldplay-lag kalla á sig

Tónlistin í sýningunni hafði mikil áhrif á hann því hana gat hann tengt sterkt við það sem hann hafði gengið í gegnum. Þar á meðal er lagið Viva la vida með hljómsveitinni Coldplay. „Ef ég heyrði það í útvarpinu í maníu 2008 var ég bara: Já, það er verið að kalla á mig,“ segir hann.

Eins ef hann sá rauðan punkt datt honum Samfylkingin í hug. „Tengslahugsunin fer út í þversummurnar, talan sjö er guðleg tala, ég þarf að tala við biskup. Endalaust skilaboð en hugsanaferlarnir eru skiljanlegir þegar þú útskýrir þá fyrir fólki.“ Það sé hins vegar enginn hægðarleikur að staldra við og útskýra málin í manísku ástandi. „Þetta eru svo miklar öfgar, svo er hin hliðin og þá bara kemstu varla í sokkana.“

Grét einu sinni en vinkonan sex sinnum

Í fyrstu vildi hann mikið aðstoða leikstjórann við heimildaöflun fyrir sýninguna og lét hana meðal annars fá dagbækur frá sjálfum sér frá því hann dvaldi á geðdeild. Svo ákvað hann að sleppa tökum. „Að hætta að róa því þú snýrð hvort eð er alltaf baki þangað sem þú ert að fara, og veist því ekki hvert þú ert að fara,“ segir hann.

Hann þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur eftir á að hyggja, sýningin fór langt fram úr hans björtustu væntingum og upplifunin var svo sterk að hann grét. „Ég fór að gráta einu sinni en Ebba vinkona mín var með mér og hún sagði: Ég fór að gráta sex sinnum,“ rifjar hann upp.

Biður fyrir Birni Thors á hverju kvöldi

Hann segir að flestir geti þekkt þessa hugsanaferla sem lýst er í sýningunni og geti tengt við eitthvað. „Það þekkja það ekki allir að hafa ekki sofið í sjö nætur en það sem ég held að takist mjög vel með sýningunni er að ná til og snerta tilfinningahörpur allra,“ segir hann.

Sem fyrr segir er bara einn leikari á sviðinu og það mæðir mikið á Birni Thors. „Ég bið fyrir honum á hverju kvöldi því það er töluvert álag að standa þarna í 90 mínútur, það er svo mikil orka sem fer í þetta. Ég er að vona að hann haldi þetta út bara að standa í þessu 2-3 í viku,“ segir Héðinn að lokum.

Rætt var við Héðin Unnsteinsson í Mannlega þættinum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Þetta var ótrúlega erfitt tilfinningalega“