Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Glastonbury-hátíðinni aflýst aftur

epa08955380 (FILE) - Festival goers dance on the first day of the Glastonbury Festival at Worthy Farm in Somerset, Britain, 26 June 2019 (reissued 21 January 2021). According to media reports, the Glastonbury festival 2021 has been canceled due to the coronavirus pandemic, the organizers announced.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Glastonbury-hátíðinni aflýst aftur

21.01.2021 - 14:03

Höfundar

Glastonbury-tónlistarhátíðinni sem átti að fara fram í sumar hefur verið aflýst. Þetta er annað árið í röð sem hátíðinni er aflýst vegna kórónuveirufaraldursins. Skipuleggjendur segjast vera fullvissir um að geta boðið gestum upp á eitthvað mjög sérstakt sumarið 2022.

Feðginin Michael og Emily Eavis, skipuleggjendur Glastonbury-hátíðarinnar, sendu frá sér yfirlýsingu fyrr í dag að ljóst sé að ekki sé hægt að halda hátíðina í ár. Þau segjast vera miður sín yfir að bregðast aðdáendum og gestum hátíðarinnar. 

Síðasta sumar var áætlað að fagna 50 ára afmæli Glastonbury og var búið að tilkynna að Paul McCartney, Taylor Swift, Kendrick Lamar auk fjölda annarra myndu koma fram. Þeirri hátíð var hins vegar aflýst í mars þegar hálfgert útgöngubann var sett á í Bretlandi. Skipuleggjendur hátíðarinnar sögðust þá hafa tapað milljónum punda enda var öll undirbúningsvinna farin af stað. Þá vöruðu þau við að ef hátíðinni yrði aflýst aftur í ár gæti það haft gjaldþrot í för með sér. Michael Eavis lét hafa eftir sér á BBC að hægt væri að koma í veg fyrir gjaldþrot með að taka ákvörðun snemma hvort að hátíðn færi fram eða ekki. 

Miðaeigendur sem þegar höfðu greitt staðfestingargjaldið fá núna endurgreitt og hafa forgang til að kaupa miða á hátíðina á næsta ári.