Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Gagnrýna hömlur á talmeinafræðinga á meðan börn bíða

21.01.2021 - 19:17
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Félag talmeinafræðinga gagnrýnir að nýútskrifaðir talmeinafræðingar þurfi að vinna í tvö ár eftir útskrift áður en þeir komast á samning hjá Sjúkratryggingum Íslands. Um 600 börn bíði eftir þjónustu og biðin sé tvö ár, en mikilvægt sé að grípa snemma inn í. 

Formaður Félags talmeinafræðinga á Íslandi segir að samkvæmt rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands fái nýútskrifaðir talmeinafræðingar ekki að starfa sjálfstætt samkvæmt samningnum. Árið 2017 hafi verið bætt inn ákvæði í rammasamning um að þeir þurfi að afla sér tveggja ára reynslu áður en þeir komast á samninginn. Einu störfin séu þá hjá ríki eða sveitarfélögum en erfitt sé að fá vinnu þar. Þetta sé mjög bagalegt því löng bið sé eftir þjónustu þeirra.

„Og þetta eru börn sem eru með alvarleg frávik í framburði og málþroska og fleiru sem kemur að talmálmeinum og þurfa virkilega á þessari þjónustu að halda. Við erum að tala um tveggja ára biðlista og þetta eru börn sem þurfa mörg á snemmtækri íhlutun að halda og mega í rauninni ekkert bíða,“ segir Kristín Th. Þórarinsdóttir formaður Félags talmeinafræðinga.

Hún segir stéttina fámenna en talmeinafræðingarnir sem um ræðir hafi lokið háskólanámi í talmeinafræði og notið sex mánaða handleiðslu í framhaldinu. Að sögn Kristínar bíða um 600 börn eftir þjónustu og sumir talmeinafræðinganna sem ekki mega starfa sjálfstætt vilja vinna úti á landi.

„Það er erfitt að fá þjónustu á landsbyggðinni og þetta eru talmeinafræðingar sem hafa tengsl við landsbyggðina og vilja fara að vinna þar. Þetta er virkilega hamlandi fyrir stéttina að það sé ekki hægt að búa svo um að þeir geti starfað á rammasamningi.“ 

Kristín segir að reynt hafi verið að semja við Sjúkratryggingar Íslands en þeir hafi mætt skilningsleysi. Heilbrigðisráðherra hafi verið skrifað bréf þar sem óskað er eftir stuðningi. Hún segir að sýnt hafi verið fram á mikilvægi þess að grípa snemma inn í hjá börnum sem þurfi aðstoð.

„Þau geta ekki beðið. Þetta er máltökuskeiðið sem er svo mikilvægt skeið hjá þessum börnum þannig að við vonum bara að það sé hægt að breyta þessu og bæta þjónustuna. “
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV