
Fyrsta lífsmarkið frá Jack Ma um margra mánaða skeið
Fjarvera Mas síðustu vikur og mánuði kynti undir vangaveltur, sögusagnir og samsæriskenningar um örlög hans, á sama tíma og kínversk samkeppnisyfirvöld gerðu húsleit í fyrirtækjum hans og fyrirskipuðu að móðurfyrirtækið, Ant Group, skyldi leyst upp í smærri einingar. Í gær ávarpaði milljarðamæringurinn Ma hins vegar 100 kennara í dreifbýli Kína í gegnum fjarfundabúnað.
Frá þessu er greint í kínverskum fjölmiðlum. Er ávarpið sagt hluti af dagskrá árlegrar uppákomu á vegum góðgerðastofnunar sem Ma rekur. Sú uppákoma er venjulega mikil og fjölmenn samkoma í borginni Sanya, en var að þessu sinni alfarið haldin á netinu vegna COVID-19.
Ekki hægt að sjá hvar Ma er staddur
Í ávarpinu sagðist Ma vonast til þess að hægt verði að hittast aftur í miklum fögnuði í Sanya þegar kófinu léttir. Ávarpið hefur þó ekki megnað að kveða niður allar vangaveltur og sögusagnir um hvar Ma er niðurkominn.
Í myndskeiðinu talar Ma beint í myndavélina. Hann er íklæddur ljósblárri peysu og í bakgrunninum sést lítið annað en gráir marmaraveggir og röndótt teppi. Af orðum Mas, bakgrunni og fréttum kínverskra fjölmiðla, verður þó hvorki ráðið hvar hann er staddur, né hvort hann er frjáls ferða sinna.