
Fauci: Sumt sagt sem átti ekki við rök að styðjast
Kórónuveirufaraldurinn verður helsta viðfangsefni Joe Biden og hann dró ekki upp neina glansmynd á fyrsta stöðufundinum í kvöld. Andlát í Bandaríkjunum af völdum COVID-19 gætu orðið 500 þúsund í febrúar.
Biden talaði fyrir grímuskyldu í kosningabaráttu sinni og hann hvatti Bandaríkjamenn til að bera grímur á fundinum í kvöld. Hann tilkynnti jafnframt að öllum farþegum í innanlandsflugi yrði gert að vera með grímu og að allir farþegar sem kæmu til Bandaríkjanna yrðu að fara í sóttkví.
Þegar Biden var spurður hvort það væri of lítið að ætla að bólusetja hundrað milljónir á fyrstu hundrað dögum valdatíðar sinnar svaraði forsetinn að þegar hann hefði lofað þessu hefðu margir talið það ómögulegt.
Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, var einnig á fundinum en samband hans og Donalds Trumps var býsna stirt. Fjölmiðlar voru því áhugasamir að vita hvernig Fauci liði undir stjórn nýs forseta. „Það voru hlutir sagðir sem manni fannst óþægilegir því þeir áttu ekki við nein rök að styðjast,“ svaraði Fauci.
Nefndi hann til að mynda malaríulyfið hydroxychloroquine sem Trump lofaði í tíma og ótíma.
Fauci sagði það enga óskastöðu að tala gegn forsetanum en hann var gagnrýnin á stefnu Trumps í baráttunni við farsóttina. „Það er býsna frelsandi að geta komið hingað og talað um eitthvað sem þú veist og er byggt á gögnum og vísindalegum rannsóknum. Eitt af því sem núverandi ríkisstjórn vill innleiða er að giska ekki ef maður veit ekki svarið. Maður á bara að viðurkenna að maður viti ekki svarið.“