Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Er verið að bólusetja alla nema okkur?

21.01.2021 - 13:24
Mynd: - / -
Bóluefni hafa verið milli tannanna á fólki síðustu vikur, aðallega vegna þess hversu hægt það gengur að sprauta því í vöðva fólks. Hvorki Kára né Þórólfi hefur tekist að komast fram fyrir röðina hjá lyfjarisanum Pfizer og upplýsingar frá stjórnvöldum hafa verið misvísandi. 

Staðan á bólusetningum á Íslandi var örskýrð í þættinum Hádeginu á Rás 1. Hlustaðu á örskýringuna í spilaranum hér fyrir ofan

En af hverju gengur þetta svona hægt? 

Ísland hefur skuldbundið sig til að kaupa bóluefni í samfloti með Evrópusambandinu og að sögn sóttvarnalæknis er ekki hægt að kaupa bóluefni fram hjá þeim samningum. Við erum því á evrópskum hraða.

Við erum samt alltaf að heyra af þjóðum sem dreifa bóluefni eins og karamellum úr flugvél. Er kannski verið að bólusetja alla nema okkur?

Til að svara þessari spurningu er best að skoða fyrst stöðuna á bólusetningum á Íslandi.

Samkvæmt vefnum Bóluefni.is er byrjað að bólusetja 5.725 Íslendinga. Þegar ég segi „byrjað“ á ég við að þetta fólk er búið að fá fyrri sprautuna af tveimur sem nauðsynlegar eru til að ljúka bólusetningu. 480 manns hafa lokið bólusetningu. Langflest eru þau áttræð eða eldri.

Á Íslandi er sem sagt byrjað að bólusetja um 1,6 af hverjum 100 íbúum. Ef við berum okkur saman við heiminn þá erum við í 14. sæti, samkvæmt tölfræðivefnum Our World in Data. Ofar á listanum eru til dæmis Danmörk, Bandaríkin, Bretland og auðvitað Ísrael, sem er á toppnum. Neðar á listanum eru meðal annars Finnland, Þýskaland og Svíþjóð.

En af hverju er þetta allt svona ruglingslegt? 

Upplýsingarnar frá stjórnvöldum hafa verið misvísandi og það er því ekki skrýtið að fólk sé ringlað. 

Í desember var til dæmis tilkynnt að bóluefni fyrir 85 þúsund manns myndi berast til landsins á næstu mánuðum. Nokkrum dögum síðar var talan komin niður í 14 þúsund. Þá var skuldinni skellt á Pfizer, sem lýsti því svo yfir að nægt bóluefni væri til og engin hætta á töfum.

Heilbrigðisráðherra sagði í byrjun desember að hjarðónæmi gæti orðið að veruleika í lok mars. Í fréttum Stöðvar 2 í þessari viku sagði sóttvarnalæknir hins vegar að búið yrði að bólusetja um 30 þúsund manns við veirunni í lok mars. Það eru um átta prósent þjóðarinnar en til að komast yfir hjarðónæmisþröskuldinn þurfa um 60 prósent þjóðarinnar að vera ónæm.

Hjarðónæmi, hjarðónæmi. Hvenær getum við búist við að vera komin með þetta blessaða hjarðónæmi? 

Ég veit það ekki en Richard Bergström, eins konar umboðsmaður bóluefna fyrir Ísland, Svíþjóð og Noreg, sagði í samtali við RÚV fyrr í mánuðinum að það væri raunhæft að áætla að Ísland kláraði að bólusetja um mitt sumar — það gengi hægt núna en hraðinn ykist í mars. 

Við krossleggjum fingur.