Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Er Emilíana Torrini úlfur?

Mynd: Rowan Cain / Artist Facebook

Er Emilíana Torrini úlfur?

21.01.2021 - 17:05

Höfundar

Meðal þess sem íslenskt tónlistarfólk veltir fyrir sér núna seinni hluta vikunnar eru geðhvörf, hvort lífið verði betra í mars, svo kemur myrkrið og móðurhlutverkið við sögu. Flytjendur með spriklandi ferskt í Undiröldunni eru Emilíana Torrini með lag úr nýju leikriti auk þess sem Funk Harmony Park, EinarIndra og Abbey, Teitur, Arianna Ferro og Konsulat kitla eyrun.

Emilíana Torrini - Vertu úlfur

Tónlistarkonan Emilíana Torrini hefur sent frá sér í samvinnu við Markétu Irglová og Þjóðleikhúsið titillag leikritsins Vertu úlfur. Lagið fjallar um hinar dekkri og viðkvæmari hliðar geðhvarfa, en sýningin er byggð á nýlegri sjálfsævisögulegri frásögn Héðins Unnsteinssonar Vertu úlfur!


Funk Harmony Park - Myrkrið

Í lok janúar sendir sveitin Funk Harmony Park frá sér þröngskífu sem inniheldur meðal annar lagið Myrkrið. Sveitin hefur verið nokkuð iðin við útgáfu á streymisveitum á síðust mánuðum auk þess að vera í samstarfi við raftónlistarútgáfuna Móatún.


EinarIndra og Abbey - Without you (Tonik Ensemble Remix)

Einar og Abbey hafa sent frá sér lagið Without You á Möller Records í endurhljóðblöndun Tonik Ensamble. Lagið er að sögn flytjenda eitt af þessum lögum sem komu hratt og örugglega til höfunda, samið án nokkurra vandræða á huggulegu laugardagskvöldi.


Teitur Magnússon - Líft í mars?

Tónlistarmaðurinn Teitur Magnússon hefur sent frá sér þriðja lagið af væntanlegri breiðskífu sinni sem kemur út á árinu. Lag Teits heitir Líft í mars? og er að sögn Teits óður til glam-rokksins þar sem hann veltir fyrir sér líðandi stund, hlakkar til hækkandi sólar og vonast eftir betri tíð.


Arianna Ferro - Sweetest Heart

Sweetest Heart er fjórða lagið sem Arianna Ferro gefur út og það þriðja í samstarfi við Arnar Guðjónsson. Arianna varð móðir 19 ára gömul og lagið segir frá reynslu hennar af móðurhlutverkinu en Ariönnu til halds og trausts er átta ára dóttir hennar sem syngur með henni.


Konsulat - Maera Globb

Hljómsveitin Konsulat sem hefur verið öflugt í útgáfu síðustu ár hefur sent frá sér breiðskífuna No. 7. Tríóið er skipað þeim Kolbeini Soffíusyni, Þórði Grímssyni og Arnljóti Sigurðssyni og þeir spila tilraunakennda raftónlist.