
Ekkert banaslys á sjó árið 2020
Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Fiskifrétta og að þakka megi góðan árangur aukinni öryggisvitund sjómanna sjálfra og áherslu útgerða á öryggismál.
Ekki megi síður líta til uppfræðslu og þjálfunar Slysavarnaskóla sjómanna ásamt nákvæmari veðurspám, öryggisbúnaði og öflugum björgum.
Haft er eftir Hilmari Snorrasyni, skólastjóra Slysavarnaskólans, að staðan sé góð á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. Fram kemur að undanfarin ár hafi undir einn sjómaður farist árlega að meðaltali sem sé mikil breyting frá fyrri tíð.
Sjómenn lentu í færri slysum við vinnu sína á síðasta ári en árin á undan, 93 slys urðu 2020, 106 árið 2019 og 157 árið 2018. Mikil frávik eru á skráningum slysa hjá Sjúkratryggingum Íslands og Rannsóknarnefnd samgönguslysa, að því er fram kemur í umfjöllun Fiskifrétta.
Hilmar Snorrason segir það geta komið niður á rannsóknum sjóslysa og geti svo aftur haft áhrif á forvarnir gegn sjóslysum.
Á liðnu ári voru alls 80 skip og bátar dregin til hafnar en meðaltal áranna 2009 til 2019 er 45. Árið 2019 þurfti að draga átján skip og báta að landi.